Tønder bankinn í Danmörku hefur verið úrskurðaður gjaldþrota og verður starfsemi hans seld til Sydbank. Örlög bankans koma Dönum í opna skjöldu því nýleg athugun fjármálaeftirlitsins hafði sýnt að reksturinn gengi vel og eiginfjárhlutfall væri gott. Er greint frá þessu á vef Ríkisútvarpsins .

Markassérfræðingar og stjórnvöld voru þess fullvissir að Tønder banki, sem nokkrir bændur í Tønder syðst á Jótlandi stofnuðu 1913, væri í góðum rekstri.

Fyrir mánuði kannaði danska fjármálaeftirlitið reksturinn eins og reglur gera ráð fyrir. Áður en sú athugun hófst var áhættan í rekstrinum talin langtum minni en hjá Sydbank, Nordea og Danske bank. Eiginfjárhlutfallið var sagt vera 18 prósent eins og nýjar reglur í Danmörku gera ráð fyrir. Eftirlitsmenn komust að raun um annað og stjórnendur verða hugsanlega kærðir til lögreglu.