Danski bankinn Saxo Bank hefur sagt upp 266 starfsmönnum. Þar af eru 168 starfsmenn bankans í Danmörku sem missa vinnuna en afgangurinn utan landsteina. Starfsmenn Saxo Bank eru rúmlega 1.500 og jafngilda uppsagnirnar því að rúmlega 17% starfsmanna hafi verið sagt upp. Forsvarsmaður félags starfsmanna fjármálafyrirtækja í Danmörku átelur stjórnendur bankans vegna málsins enda hafi félagið ekki verið haft með í ráðum eða upplýst um uppsagnirnar áður en til þeirra kom.

Danska viðskiptablaðið Börsen segir ástæðuna sem stjórnendur bankans hafi gefið þá að mjög hafi hægt um í starfsemi bankans í kjölfar fjárkreppunnar. Ditte Buchwald, starfsmannastjóri Saxo Bank, segir í samtali við blaðið verið sé að aðlaga starfsemi bankans að breyttum markaði.

Börsen bendir á að rekstrarhagnaður Saxo Bank það sem af er ári nemi 190 milljónum evra og hafi innlán aukist um 21% á milli ára.