Óttast er að ákvörðun leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins að lækka skuldir Grikkja um 50% geti komið Jyske Bank í Danmörku afar illa. Bankinn á grísk ríkisskuldabréf upp á hálfan milljarð danskra króna, jafnvirði 10 milljarða íslenskra króna. Þegar skuldir gríska ríkisins eru lækkaðar um helming gufar helmingurinn af verðmæti skuldabréfasafns bankans upp.

Í danska dagblaðinu Börsen kemur fram að stjórnendur Jyske Bank vilji ekki tjá sig um málið.

Blaðið bendir á að samkomulag leiðtoga ESB-ríkjanna í gær komi ekki jafn illa niður á öðrum dönskum fjármálastofnunum enda eigi þau lítið ef nokkuð af grískum skuldabréfum. Þá hafa fjórir danskir bankar farið í gegnum álagspróf evrópska bankaeftirlitsins, EBA. Þeir stóðust það að Nykredit Sydbank undanskildum sem þarf að bæta 350 milljónum danskra króna að halda til að standast nýsamþykktar 9% eiginfjárkröfur sem á banka og fjármálafyrirtæki sem innan ESB.

Harðast kemur skuldaniðurfellingin niður á bönkum í Frakklandi og Þýskalandi sem höfðu lánað Grikkjum háar fjárhæðir.