„Sigurdur Einarsson er ekki fúll, Sigurður er virkilega reiður,” skrifar Jens. Chr. Hansen, blaðamaður á viðskiptablaði Berlingske Tidende á vef blaðsins í dag og vísar þar með til Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings og kynningarfundar sem Viðskiptaráðs Íslands og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn héldu fyrir Dani í gær. Fyrirsögn greinarinnar er „Reiður bankamaður frá Íslandi”.

Vænir Portes um að vera á mála

Hansen uppnefnir fundinn „hlustið-nú-fjandakornið”-ráðstefnu og er tóntegundin í skrifum hans meinyrt og einkennist af kaldhæðni. Hann segir Sigurð „í alvöru þreyttan á eilífri tortryggni í garð Íslendinga” og „sérdeilis ergilegan” yfir að danskir fjölmiðlamenn og greiningaraðilar er fjalli um íslenskt efnahagslíf „hafi ekki nægilega vitsmunalegan grunn til að skilja”.

Þá gerir hann lítið úr Richard Portes, prófessor London Business School, og segir hann alls ekki hafa tekist að sannfæra viðstadda um að „allir fjármagnsmarkaðir heimsins væru bara heimskir og hefðu rottað sig saman gegn íslensku krónunni og íslenska hlutabréfamarkaðnum” og bætir við „þóknanir hans hljóta að hafa verið himinháar.”

Hann kveðst þó trúa Sigurði um að Kaupþing standi ekki andspænis hruni og að rétt sé að íslenskt viðskiptalíf sé jafn fjölbreytt og viðskiptalíf í Danmörku og að ekki sé til einhvers konar íslenskur erki-fjárfestir.

Hann bætir svo við að í krafti stöðu sinnar sé framlag Sigurðar til skilnings á íslenska fjármálakerfinu mikilvægt. Sigurði megi þó vera ljóst að íslenskt efnahagslíf líði fyrir krosseignarhald, ógagnsæja viðskiptahætti og skort á skýrum upplýsingum. Sigurður geti ekki einsamall axlað ábyrgð á íslensku efnahagslífi og vanti fleiri valdamann á borð við hann til að stíga fram og axla meðábyrgð, ekki aðeins á eigin fyrirtækjum heldur og íslenska bankakerfinu og íslensku efnahagslífi almennt.

Lýsir eftir Jóni Ásgeiri, Björgólfi, Pálma og Hannesi

Hann bætir við að lokum að kannski hafi þó Sigurður ekki verið rétti maðurinn til að bjóða til fundarins og spyr: „Hvar var Jón Ásgeir Jóhannesson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason? Og hvar voru skýringarnar á fjárfestingastefnu þeirra og reikningsskilum. Afhverju sátu þeir ekki við háborðið við hlið utanríkisráðherrans og hins ágæta prófessor Portes? Við viljum nefnilega svo ákaflega vita um þá og fjárfestingar þeirra.”