Danir eru þekktari fyrir margt annað en bílaframleiðslu, en nú er danskur handsmíðaður ofurbíll á leiðinni á göturnar. Á næsta ári verður lokið við smíði fyrsta eintaksins af Zenvo, sem hefur þá eiginleika að vera 3 sekúndur í 100 km/klst, komast hæst í 375 km/klst og hafa í vélarrúminu 1104 hestöfl.

Bensíneyðslan er ekki gefin upp enda er sparneytni sennilega ekki forgangsmál hjá væntanlegum kaupendum, þar sem verðið er ríflega 350 milljónir íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Bíllinn keppir við bíla á borð við Bugatti og Lamborghini. Fyrir þá sem vilja eitthvað sem aðrir eiga ekki hefur hann þó þann kost að einungis verða framleidd 15 stykki, þannig að litlar líkur eru á að mæta eins bíl. Bugatti selst í um 250 eintökum á ári, þannig að aki menn um á slíkum vagni taka þeir ákveðna áhættu.

Nýr Lamborghini, Reventón, keppir þó að þessu leyti við Zenvo, því að hann var aðeins framleiddur í 20 eintökum. Viðtökurnar voru gríðarlega góðar og bíllinn seldist hratt upp þrátt fyrir fjármálakreppu. Zenvo hefur hins vegar forskot þegar kemur að orku og snerpu, því að nýi ofur-Lamborghini bílinn er „aðeins“ 650 hestöfl og heilar 3,4 sekúndur í hundraðið, eins og lesa má um á pleasure.dk.