Peter Eastgate, danski pókerspilarinn sem vann rúma 11 milljarða króna í pókerspili í Las Vegas í gær, þarf ekki frekar en hann vill að vinna það sem eftir lífsins. Hann getur haft vel yfir 22 milljónir króna á ári í vexti af vinningsupphæðinni og drukkið kampavín með kavíarnum á hverjum degi.

Eastgate hefur tröllatrú á danska bankakerfinu og lagði summuna alla inn á reikning sem gefur honum um 66 milljónir króna í vexti á ári. Og þrátt fyrir háa fjármagnstekjuskatta í landinu ætti hann að hafa fyrir sjálfan sig vel yfir 22 milljónir króna á ári. Þetta er haft eftir Arne Lenstrup, sem er fjármálaráðgjafi hjá Danske Spil sem undanfarin sex ár hefur leiðbeint dönskum lottó-milljónamæringum hvernig best er að ávaxta pundið.

„Ég gef honum þau ráð að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Ég gæti vel ímyndað mér að hann sé tilbúinn að taka mikla áhættu í fjárfestingum og þess vegna er áríðandi að leggja hluta fjárins til hliðar í öruggar fjárfestingar eins og fasteignir eða skuldabréf,“ segir Lenstrup.

Hann segir að Eastgate, sem er 22 ára gamall, þurfi að ráða til sín sérfræðing sem haldi utan um eignir hans.