Nýherji [ NYHR ] tapaði 91 milljón króna á öðrum fjórðungi samanborið við 104 milljón króna hagnað á sama tíma í fyrra, líkt og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Fjármagnsgjöld námu 165 milljónum á öðrum fjórðungi samanborið við kostnað upp á 43 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Því varð 91 milljón króna tap af starfsseminni á fjórðungunum, stendur í afkomutilkynningunni.

Dansupport A/S í Danmörku var rekið með meiri halla en áætlun gerði ráð fyrir. En afkoma móðurfélagsins var í takt við áætlanir fyrir fjórðunginn, stendur í afkomutilkynningu.

Nýherji hefur vaxið og tekið miklum breytingum á rúmu ári og mörg fyrirtæki hafa bæst í samstæðuna. Unnið hefur verið að því að samhæfa starfsemi einstakra félaga og deilda.

Viðfangsefni á þriðja ársfjórðungi verður að auka samlegð í rekstri og ná fram vaxandi arðsemi af þeim fjárfestingum, sem gerðar hafa verið í nýjum fyrirtækjum á liðnu  ári.

„Rekstur og afkoma af kjarnastarfsemi Nýherja var ágæt og einnig af starfsemi Applicon erlendis,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Slök afkoma af fjarfestingum í nýrri starfsemi íþyngja rekstrinum, en áfram verður unnið að því að ná fram samlegð í núverandi og nýrri starfsemi innan Nýherja. EBITDA var lakari nú en á sama ársfjórðungi á síðasta ári, m.a. vegna tapreksturs einstakra eininga og talsverðrar gjaldfærslu á hugbúnaðarþróun. Lækkun á gengi íslensku krónunnar og háir vextir á Íslandi valda því einnig að afkoma félagsins er mun lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir hann.