Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar verða bundin við bryggju stóran hluta ársins því ráðstöfunarfé til stofnunarinnar hefur lækkað um 300 milljónir króna milli ára. Vegna þessa er ekki útlit fyrir að farið verði í loðnuleiðangur í lok september. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu kemur fram að í fyrra hafi rannsóknarskip verið 320 daga á sjó en nú verði úthaldsdagarnir innan við 200.

„Forgangsröðin er orðin þröng en við höfum reynt að laga okkur að þessum erfiðu aðstæðum í rekstrinum eins og við höfum getað. Við höfum þurft að ganga á kjarnastarfsemina og erum í raun komin inn að beini," segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, í samtali við Morgunblaðið.

„Allt sem við fellum niður getur haft fjárhagsleg áhrif á útveginn með lægra aflamarki eða meiri áhættu. Það er afleitt að fella niður loðnuleiðangur í haust, en í byrjun árs lá fyrir hversu mörgum dögum á árinu yrði varið í loðnuúthaldið. Mjög lítið svigrúm er eftir af því nú seinni hluta ársins en við eigum eftir að ræða þetta betur við fjárveitingarvaldið, ráðuneytið og atvinnugreinina.

Það er mjög alvarlegt að geta ekki sinnt þessu og dapurleg staða fyrir fiskveiðiþjóð að geta ekki staðið betur að hafrannsóknum."