Umræðan um skuldaniðurfellingar í aðdraganda kosninga einkennist af vinsældakosningu að mati Katrínar Olgu Jóhannesdóttur. Katrín Olga, sem situr í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og í bankaráði Seðlabankans, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að sér finnist dapurlegt að verið sé að fara aftur inn í kosningabaráttu sem byggi á slíku.

„Mér finnst mikilvægt að tala til almennings opinskátt og einlægt um stöðuna eins og hún er og staðan mætti sannarlega vera betri. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við. Ég held að næstu tvö ár verði erfið. Við erum ennþá með fjármagnshöft, það á eftir að leysa úr þeim vanda og margt annað sem verður sársaukafullt.“

Hún segir að auðvitað sé skuldavandi heimilanna stórt mál og einhverjir lofi lausn þeirra með niðurfellingu skulda. „Það er aðgerð sem skattgreiðendur greiða að lokum. Það sem hjálpar heimilum landsins mest er aukinn kaupmáttur. Honum getum við m.a. náð með því að lækka vöruverð á nauðsynjavörum. Til dæmis hefur verslunin reiknað út að heimilin greiða árlega u.þ.b. 16 milljörðum meira fyrir nauðsynjavörur en þau þyrftu að gera. Með því að auka viðskiptafrelsi, afnema innflutningshöft og lækka vörugjöld, mætti auka kaupmátt hvers íslensks heimilis um 130 þúsund krónur á hverju ári,“ segir Katrín Olga.

Ítarlegt viðtal er við Katrínu Olgu í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir páska. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.