Íslenska hagkerfið er til umfjöllunar í nýjasta tölublaði tímaritsins The Economist.

Í greininni, sem ber nafnið „Þar til að skuldirnar oss aðskilja”, kemur fram að hagkerfi landsins sé í vanda sökum mikillar erlendrar skuldsetningar bankanna.

Fram kemur að viðskiptahallinn sé feykilegur og að viðskiptabankarnir þrír hafi sótt mikið fé á erlenda fjármálamarkaði til þess að fjármagna hann. Þar af leiðandi hafa þeir bólgnað út í samanburði við raunstærðirnar í hagkerfi landsins.

Í greininni segir að Íslendingar hafi í sögulegu samhengi náð að kveða niður verðbólguna. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, er sagður berjast gegn verðbólgunni með slíkri hörku að annað eins hefur ekki sést síðan að Paul Volcker rak bandaríska seðlabankann á níunda áratug nýliðinnar aldar.

Hinsvegar hefur verðbólgan verið yfir markmiðum bankans. Vaxtamunurinn hefur leitt til þess að íslenska krónan hefur notið vinsælda meðal þeirra sem stunda vaxtarmunarviðskipti. Styrking gengis krónunnar leiddi til þess Íslendingar eyddu enn meira í neyslu, þrátt fyrir háa vexti og skatta.

Svo kom að skuldadögum síðasta sumar. Verðbólga var há og stýrivextir hækkaðir, krónan styrktist og að sögn greinarhöfundar var þessum hring lokað með óheftri lántöku. Íslenska hagkerfið var í þessu ástandi þegar lánsfjárkreppan vegna hrunsins á markaðnum undirmálslán hófst.

Bent er á í greininni á íslensku bankarnir hafa að mesta forðast stöðutöku í skuldabréfavafningum sem innihalda undirmálslán. Samt sem áður hefur lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum reynst þeim erfiður ljár í þúfu.

Sagt er að íslensku bankarnir fái ekki neinn aðgang að millibankamörkuðum í Evrópu. Skuldatryggingaálög þeirra náðu hæstu hæðum í fyrra.

Þótt að bankarnir hafi ekki þurft að taka lán á þeim kjörum sem þróunin á skuldatryggingaálögunum gaf til kynna segir greinarhöfundur að þetta bendi til þess að markaðurinn hafi talið bankana vera í vanda. Auk þess sem að efasemdir hafi verið uppi um hvort að Seðlabanki Íslands geti staðið við bakið á þeim ef í harðbakkann slær.

Afleiðingar þessa hafa komið fram í ár. Gengishrun íslensku krónunnar og mikil verðhækkun á grunnvöru. Greinarhöfundur fullyrðir að tveggja stafa verðbólga og samdráttarskeið sé óumflýjanlegt og segir hann þetta dapurlegan endi á fjörugu fyllerí á fjármálamörkuðum heimsins.

Hér má sjá frétt The Economist.