Hinrik Þórðarson, pípulagningarmeistari á Akureyri spyr í Viðskiptablaðinu í dag hvar skjaldborgin sé sem slá átti um atvinnulífið og heimilin í landinu. Hann segir að ástandið sé  dapurlegt framundan, en Hinrik stofnaði fyrirtæki sitt HÞ lagnir ehf. í ársbyrjun 2005.

„Ég sé fram á að hafa nóg að gera fram á haustið en veit ekkert hvað gerist þá. Það eru engar nýbyggingar í gangi nema það sem verið er að klára. Nú er ég t.d. eingöngu í viðhaldsverkefnum."

Segir Hinrik að viðhaldsverkefni í skólum fyrir sveitarfélög í nágrenninu séu líka að leggjast af því að sveitarsjóðirnir eru tómir. „Og ekki hefur maður verið að hækka við sig launin. Laun og útseld vinna hefur ekkert breyst hjá mér síðan 1. janúar 2008; innflutt pípulagningarefni hefur hækkað um 80 til 100%. Málari sem ég þekki segist hafa nóg að gera núna í sumar en í haust reiknar hann með því að menn setjist bara niður og spili á spil."