„Það var afar erfitt að fá skýr svör," sagði Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, í samtali við Sigrúnu Davíðsdóttur á Rúv í kvöld. Fór hann þar yfir samskipti sín við íslenska stjórnmálamenn og embættismenn. Í aðdraganda að íslenska bankahruninu og eftir fall Glitnis talaði Darling við Björgvin G. Sigurðsson, Árna M. Mathiesen og Geir H. Haarde.

Það kom skýrt fram í máli Darling að honum fannst íslensk stjórnvöld ekki átta sig á þeim vanda sem upp væri komin hausið 2008. Hann kvartaði yfir því að ekki hefði verið komið hreint fram í samskiptum. Svörin hefðu ekki verið skýr, menn haldið langar tölur en hans reynsla væri sú að þá væru menn að reyna að fela eitthvað.

Í viðtalinu sagði hann að fjármunir hefðu verið færðir í miklum mæli frá Bretlandi. Hans verkefni hefði verið að gæta hagsmuna breskra skattgreiðenda eins og það var hlutverk íslenskra stjórnmálamanna að gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda.

Í ljósi þess að breska fjármálaeftirlitið taldi að verið væri að færa háar fjárhæðir frá Bretlandi til Íslands hefði verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða með því að frysta eignir Landsbankans og taka yfir Kaupthing Singer og Friedlander þrátt fyrir að þeim banka hefði ekki verið heimilt að taka lengur við innlánum.

Leikurinn er úti

Alistair Darling
Alistair Darling
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Ef þeir hefðu sagt: Leikurinn er úti. Við getum ekkert gert," hefði verið hægt að vinna saman að niðurstöðu sem hentaði bæði breskum og íslenskum hagsmunum sagði Darling. En í ljósi þess að peningar voru færðir úr landi urðu bresk stjórnvöld að grípa til aðgerða, sem fólst í beitingu hryðjuverkalaga.

„Stefna okkar var að trygja breska sparifjáreigendur," sagði Darling í viðtali á Rúv.