Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands hefur verið duglegur við það síðustu daga að verja áætlaðan hátekjuskatt en ríkisstjórn Bretlands hefur lagt það til að hæsta skattþrep á einstaklinga verði hækkað úr 40% í 50%.

Viðmiðunin á að vera 150.000 pund á ári, eða um 2,4 milljónir króna á mánuði. Miðað er við að lögin um hátekjuskatt taki gildi í apríl á næsta ári.

Í gær sagði Darling, í ávarpi á árlegum fundi atvinnurekenda (e. Institute of Directors), að það væri aðeins sanngjarnt að þeir sem hefðu „breiðari bök“ borguðu meira en aðrir en þetta hugtak hefur orðið nokkuð þekkt undanfarið.

Darling sagði að hátekjuskatturinn væri ekki settur á nema af illri nauðsyn en vegna þeirra „óvenjulegra aðstæðna“ sem nú væru uppi væri nauðsynlegt að auka tekjur ríkisins.

Darling sagði að það væri vilji ríkisstjórnarinnar að Bretland væri eftirsóknarvert fyrir viðskiptalífið og því bæri að fara varlega í skattlagningu. Í ávarpi sínu ítrekaði hann þó að það á erfiðum tímum líkt og nú væri það aðeins sanngjarnt að hinir ríku tækju á sig auknar byrðar.

Þá kom einnig fram í ávarpi Darling að með hátekjuskatti og öðrum nýjum gjöldum, sem kynnt yrðu síðar, væri það von ríkisstjórnarinnar ná inn auka 7 milljörðum Sterlingspunda en áætlað er að halli breska ríkissjóðsins verði um 175 milljarðar punda á þessu ári.

„Ég tel að það sé sanngjarnt að þeir sem breiðari hafi bökin beri auknar byrðar um þessar mundir. Þegar öllu er á botninn hvolft höfum við öll hagsmuni af því að fjárhagslegur stöðugleiki myndist meðal einstaklinga í landinu og þá helst til langs tíma,“ sagði Darling.

Atvinnulífið gagnrýnir hátekjuskattinn

Hátekjuskatturinn hefur verið gagnrýndur meðal félagsmanna Institute of Directors en framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Miles Templeman segir skattinn senda röng skilaboð, bæði til atvinnulífsins og eins einstaklinga. Hann sagði að frekar ætti að huga að niðurskurði meðal ríkisins, til að mynda mætti fækka opinberum starfsmönnum um 5% eða lækka laun bæði opinberra starfamanna og starfsmanna í einkageiranum.

Darling svaraði ummælum Templeman í ávarpi sínu í gær. Hann sagði að fyrirhugaður sparnaður í opinberum rekstri næmi um 35%, sem væri stórt skref. Það myndi hafa í för með sér niðurskurð á rekstrarkostnaði opinberra fyrirtækja og stofnana og í einhverjum tilvikum lækkun launa og jafnvel uppsagna.

Darling sagði að nauðsynlegt væri að fara í gegnum alla útgjaldaliði hins opinbera og sjá hvar mætti skera niður. Hann hét því að hið opinbera myndi ekki gefa neitt eftir í niðurskurði sínum en gæta þyrfti þó að velferðarkerfinu.