Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands varaði Breta við því fyrir helgi að eitthvað yrði efnahagsbatinn í landinu lengri og erfiðari en áður hafði verið gert ráð fyrir, þá sérstaklega ef verð á hráolíu héldi áfram að hækka en einnig ef önnur Evrópuríki myndu ekki grípa inn í starfssemi banka sinna til að koma í veg fyrir hrun þeirra.

Darling, sem flutti ræði á meðal viðskiptaleiðtoga í Lundúnum, sagðist vera öruggur um efnahagsbata framundan en tók þó fram að hann vildi stíga varlega til jarðar. Þá sagði hann á fundi 8 helstu iðnríkja heims á Ítalíu um helgina að hafa þyrfti allan vara á þegar menn spáðu efnahagsbata.

Darling gaf í skyn að fjölmörg Evrópuríki hefðu sett kíkinn fyrir blinda augað þegar kæmi að því að taka út starfssemi banka sinna. Hann sagði Breta vera skrefinu á undan öðrum þjóðum í því að bera kennsl á eitruð veð bankanna og hjálpa þeim við endurfjármögnun til að koma í veg fyrir frekari erfiðleika. Þá bætti Darling því við að aðrar þjóðir yrðu að fara að fordæmi Breta.

„Vandamálin hverfa ekki þó maður sitji og bíði eftir að þau fari,“ sagði Darling í samtali við Financial Times (FT) eftir fundinn. FT segir að jafnvel þótt Darling hafi ekki nefnt neitt ríki á nafn megi öllum vera ljóst að hann hefði verið að vísa til Spánar, Svíþjóðar og Þýskalands í ræðu sinni.

Kalt á milli fjármálaráðherra

En það virðist anda köldu milli Darling og Peer Steinbrück, fjármálaráðherra Þýskalands. Steinbrück sagði nýlega í viðtali að Bretar væru í raun að pissa í skóinn sinn með því að dæla út peningum í hagkerfið með tilheyrandi framtíðarverðbólgu og þar með að ýta vandamálinu yfir á næstu kynslóðir.

Þegar Darling var spurður út í þessi ummæli Steinbrück fyrir helgi sagði hann að virðisaukaskattslækkun frá því í nóvember síðastliðnum hefði komið bresku hagkerfi í gang á ný en ítrekaði um leið að hann þyrfti ekki á kennslustund frá Hr. Steinbrück að halda.