Alistair Darling, fjármálaráðherra, lækkaði hagvaxtarspá Bretlands fyrir árið 2008 þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í fyrsta sinn eftir að hann tók við embætti í júní á síðasta ári. Hagvaxtarspá fjármálaráðuneytisins fyrir þetta ár var lækkuð í 1,75-2,25%, úr 2-2,5% frá því í október.

Hin nýja hagvaxtarspá ráðuneytisins er hins vegar enn töluvert bjartsýnni heldur en spár einkaaðila. Darling sagði að lánsþörf ríkisins myndi aukast á næstu árum og spáir því að ríkið þurfi að taka lán fyrir 38 milljarða punda á þessu fjárlagaári og því næsta.

Fyrri spá ráðuneytisins gerði ráð fyrir lántökum upp á 36 milljarða og 31 milljarð. Þetta þýðir að lántaka ríksins á næstu tveimur árum verður um 2,9% af vergri landsframleiðslu. Darling sagði að heildarskuldir ríkissjóðs í lok þessa fjárlagaárs yrðu 37,1% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, sem var undir spám sérfræðinga.