Flugmálayfirvöld í Evrópu hafa lýst yfir áhyggjum í kjölfar flugóhapps s.l. sunnudag þegar eitt lendingarhjóla Dash-8 Q400 vél í eigu SAS flugfélagsins gaf sig í lendingu.

Atvik þetta var það þriðja í röðinni á aðeins tveimur mánuðum og í öllum tilvikum er um sömu gerð flugvéla að ræða. Vélin er framleidd af Bombardier verksmiðjunni í Kanada.

Öryggisnefnd flugmála í Evrópu (European Avitation Safety Agency) hefur beðið um neyðarfund með framleiðanda vélarinnar og í framhaldi af honum verður tekin ákvörðun um hvort vélarnar verði kyrrsettar um óákveðin tíma.

Síðastliðin sunnudag tilkynnti stjórn SAS að hætt yrði að nota vélarnar fyrir fullt og allt en alls á félagið 27 vélar af Q400 gerðinni. Í kjölfarið hefur SAS þurft að hætta við um 200 flug og er talið að tjón félagsins verði um 3,8 milljarðar eins og Herald Tribune greinir frá. Talsmenn SAS segja að það taki nokkra mánuði að koma áætlun félagsins í réttar skorður vegna þessa en flugfloti félagsins telur um 300 vélar.

Dash-8 Q400 vélarnar voru teknar í notkun árið 2000 og eru því nokkuð nýjar. Þær 27 vélar sem eru í flugflota SAS er sá næst stærsti í Evrópu en lággjaldafélagið Flybe er með 29 vélar í sínum flota. Ekkert annað flugfélag þó hefur tilkynnt um kyrrsetningu sinna véla, hvorki í Evrópu, Ástralíu né Bandaríkjunum.

Það mun ráðast á næstu dögum hvort vélarnar verði kyrrsettar í Evrópu.