Framtakssjóðurinn Frumtak II hefur fjárfest í íslenska sprotafyrirtækinu Data Dwell, en með markaðsstyrk frá tækniþróunarsjóði uppá 10 milljónir króna, er heildarfjármögnunin þá 150 milljónir.

Hugbúnaðurinn mest notaður á Íslandi og Bretlandi

Fyrirtækið Data Dwell var stofnað af þeim Ólafi Helga Þorkelssyni og Skarphéðni Steinþórssyni árið 2012. Starfa 9 manns hjá fyrirtækinu og er hugbúnaður þess í notkun hjá fyrirtækjum á Íslandi og í Bretlandi.

Verður fjármögnunin nýtt til að sækja enn frekar inn á Bretlandsmarkað, þar sem sölu og markaðsstarf félagsins verður. Hugbúnaðarþróun fyrirtækisins er á Íslandi og verður efld verulega.

Cartoon Network einn viðskiptavinanna

Hugbúnaður Data Dwell býður uppá miðlæga vistun og afkastamikla miðlun starfrænna markaðsgagna fyrir stærri fyrirtæki. Á hann að minnka kostnað, draga úr umsýslu innan fyrirtækja og minnka líkur á að röng gögn séu notuð eða greiða þurfi höfundarréttarhöfum vegna notkunar myndefnis í óleyfi.

Er hugbúnaður þeirra þegar í notkun hjá sjónvarpsstöðinni Cartoon Network, auk fyrirtækja á borð við Coca-Cola á Íslandi, Vodafone, 66°N, Marel og Arion banka.