Nýsköpunarfyrirtækið DataMarket er meðal þátttakenda í stóru rannsókna- og þróunarverkefni sem leitt er af Tækniháskólanum í Berlín og fjármagnað að stórum hluta af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins.

Verkefnið gengur undir vinnuheitinu DOPA og snýst um að samræma aðgang að og tengja saman margvísleg gagnasöfn, einkum gagnasöfn sem tengjast efnahags- og fjármálum Evrópuríkja.

Fram kemur í tilkynningu frá DataMarket að þáttur fyrirtækisins í verkefninu snúi að öflun og miðlun tölulegra gagnasafna, þar á meðal hagtalna, gengisupplýsinga og vaxtaupplýsinga og myndræna framsetningu þeirra. Aðrir þátttakendur koma að verkefninu með umfangsmikil söfn textaupplýsinga s.s. lagasöfn, dóma, einkaleyfaskráningar og kauphallartilkynningar. Allar þessar upplýsingar verður unnt að tengja saman, leita í og myndbirta fyrir tilstilli DOPA verkefnisins.

Verkefnið tekur tvö ár og nemur fjármögnun Evrópusambandsins rétt tæpum 2 milljónum evra, um 315 milljónum króna. Hlutur DataMarket nemur 60 milljónum króna.