Íslenska fyrirtækið DataMarket mun þann 1. október næstkomandi kynna nýjustu afurð sína á sérstökum kynningardegi sem nefnist Energy Datapalooza í Hvíta húsinu í Washington. Í tilkynningu frá DataMarket segir að að á þessum degi séu kynntar helstu vörur, þjónusta og forrit sem vinna með gögn um orkuframleiðslu. Uppruni gagnanna er frá bandarískum stjórnvöldum og öðrum opinberum aðilum.

Meðal þeirra sem verða með DataMarket á þessum degi í Hvíta húsinu er Stephen Chu, orkumálaráðherra Bandaríkjanna. Kynningin byrjar klukkan 8:30 að staðartíma og verður hægt að horfa á viðburðinn á heimasíðu Hvíta hússins.

Hjálmar Gíslason stofnaði DataMarket árið 2008 en það rekur gagnatorgið Datamarket.com. Í janúar á þessu ári var síðan stofnað dótturfyrirtæki í Bandaríkjunum. Hjálmar segir á Facebook síðu sinni að hann hafi beðið nokkuð lengi eftir því að geta greint frá ferð DataMarket í Hvíta húsið.