Íslenska sprotafyrirtækið Datasmoothie hefur verið tilnefnt til MRS verðlaunanna sem að samband markaðsrannsóknafyrirtækja í Bretlandi veitir en tilnefning Datasmoothie er í flokknum „tæknileg nýnæmi og skilvirkni.“

„Verðlaunin eru veitt á uppskeruhátíð markaðsrannóknariðnaðarins í London snemma í desember og eru á vegum The Market Research Society, alþjóðlegs sambands markaðsrannsóknarfyrirtækja,“ segir í fréttatilkynningu.

Haft er eftir Geir Freyssyni, framkvæmdastjóra Datasmoothie, að þetta sé mikill heiður fyrir fyrirtækið að vera tilnefnt. Hann segir jafnframt að þetta sé hálfgerð Óskarsverðlaun í markaðsrannsóknum.

„Okkar markmið er að gera hverjum sem er, óháð tæknikunnáttu, kleift að segja sögu með gögnum á vefnum. Það getur hver sem er notað Datasmoothie til þess að greina gögn og birta niðurstöður með gagnvirkum hætti en þetta hentar sérstaklega vel fyrir markaðsrannóknir og skoðanakannanir,“ er haft eftir honum.