Sérstakur viðauki við samning milli slitabús Kaupþings og Nýja Kaupþings (sem síðar varð Arion banki) var undirritaður í september 2009. Viðaukinn innihélt lista af fyrirtækjum sem úr átti að ná auknum endurheimtum, en listinn hefur í opinberri umræðu gjarnan verið kallaður „dauðalistinn“. Í grein Morgunblaðsins segir að tilvist hans hafi nú verið staðfest en Morgunblaðið birti í dag yfirlit yfir fyrirtækin á listanum.

Meðal fyrirtækja á listanum eru Gaumur, sem m.a. átti Haga, 1998, Baug Group, sjávarútvegsfyrirtæki eins og Samherji, Síldarvinnslan og Vinnslustöðin.

Við slit Kaupþings voru eignir flutta yfir í Nýja Kaupþing, og skuldbindingar fluttar á móti. Skuldbindingarnar reyndust vera 38,3 milljörðum lægri en eignirnar sem áttu að koma á móti skuldbindingunum. Kaupþing og Nýja Kaupþing deildu um virði ákveðinna eigna, þ.e. krafna á ákveðin fyrirtæki. Var ákveðið að auknar endurheimtur af skuldunum myndu ganga að 80% upp í skuld slitabúsins. Ef skuldin yrði greidd upp að fullu þá myndi slitabúið fá 50% af næstu 10 milljörðum sem myndu innheimtast.

BM Vallá er eitt þeirra fyrirtækja sem er á listanum, en fyrirtækið fór í greiðslustöðvun snemma á árinu 2010. Arion banki, einn stærsti lánveitandi fyrirtækisins, hafnaði nauðasamningum í maí 2010 og krafðist þess að BM Vallá yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, hefur haldið því fram í fjölmiðlum að fyrirtæki hafi verið á „dauðalista“ hjá Arion banka yfir fyrirtæki sem gera ætti gjaldþrota.

Arion banki hefur alla tíð hafnað fullyrðingum um að slíkur dauðalisti hafi verið til. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er um að ræða lán sem gamli og nýi bankinn deildu um raunverulegt virði á og að ákveðið hafi verið að endurheimtur yfir bókfærðu virði þeirra myndu skiptast á milli bankanna tveggja. Fyrirtækin hafi hins vegar ekki verið meðhöndluð með öðrum hætti en önnur fyrirtæki.