Ingólfur Bender , aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að iðnfyrirtæki séu að glíma við erfiðleika vegna kröftugs samdráttar í eftirspurn. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá telja 68% stjórnenda iðnfyrirtækja að heimsfaraldurinn hafi neikvæð áhrif á þeirra fyrirtæki.Tæplega 40% þeirra hyggjast fækka starfsfólki á næstu tólf mánuðum.

„Byggingariðnaður er sögulega séð ein sveiflukenndasta grein hagkerfisins og fylgir hagsveiflum mjög vel," segir Ingólfur. „Byggingariðnaðurinn og ferðaþjónustan hafa haldist svolítið í hendur því byggingarfyrirtækin hafa verið að vinna mikið fyrir ferðaþjónustufyrirtækin.

Nú eru sterk merki um verulegan samdrátt í fjárfestingum atvinnuveganna, í byggingarvörum og atvinnuhúsnæði. Við sjáum líka að það er að draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þetta er kröftug niðursveifla, sem ríkið er að reyna að vinna á móti meðal annars með innviðaframkvæmdum. Ég held að það sé full þörf á að fara í frekari opinberar framkvæmdir en þegar hafa verið boðaðar. Það er til að mynda mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf í samgöngukerfinu og við erum í dauðafæri til að mæta henni núna. Við erum með slaka á innlendum markaði, lága vexti og tiltölulega góða skuldastöðu hins opinbera. Þessu til viðbótar eru nánast engir ferðamenn í landinu, sem þýðir að það eru færri á ferðinni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.