Fasteignamarkaður í Þýskalandi hefur verið mjög stöðugur undanfarin ár og hefur sveiflast mun minna en gengur og gerist i nágrannalöndunum. Sumir segja skýringuna þá að stríðsárakynslóðin sé mjög varfærin þegar kemur að peningamálum og hafi innprentað afkomendum sínum fyrirhyggjusemi. Þjóðverjar eru því lítið á þeim buxunum að rjúka til og kaupa hús í því augnamiði að verðlagið kunni hugsanlega að rjúka upp úr öllu valdi.

Samkvæmt upplýsingum Global Property Guide (GPG) er dauft yfir þýska fasteignamarkaðnum og mun minna fjör en í nágrannalöndunum. þannig hækkaði fasteignaverð aðeins um 1,2% á árinu 2006, sem þýðir 0,33% raunlækkun ef mið er tekið af verðbólguþáttum.

Þrátt fyrir raunlækkun fasteignaverðs hefur leigumarkaðurinn verið mjög ásættanlegur fyrir húseigendur. Hann hefur verið að skila 4,5 til rúmlega 7% afkomu eins og í Berlín þar sem spennan hefur verið einna mest. Skattur af leigutekjum getur verið frá 15% til rúmlega 26% en skattur er ekki heimtur af söluhagnaði húsa sem hafa verið í eigu sömu aðila í tíu ár eða lengur. Kostnaður við fasteignaviðskipti þykir tiltölulega hóflegur í landinu og engar takmarkanir eru á kaupum útlendinga. Þá er lánamarkaðurinn einnig opinn, en útlendingum er þó bent á að þeir skuli ekki vænta þess að fá hærri lán en sem nemur 60% af fasteignaverðinu. Þá er bent á að réttur leigutaka sé mjög sterkur hvað varðar lengd leigutíma og tryggan búseturétt. Segir GPG það trúlega skýra hvers vegna Þjóðverjar leigi fremur íbúðir en kaupi, en um 58% af öllum heimilum í Þýskalandi eru í leiguhúsnæði.