Ákveðin sumarstemning virðist hafa verið á hlutabréfamarkaði í júní þegar velta nam einungis 30,6 milljörðum króna en mánuðurinn er sá næst veltulægsti á árinu. Bent er á þetta í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir að aðeins í mars hafi velta verið lægri en síðan þá hafa bæst við tvö félög á markað, TM og VÍS.

Reginn var veltuhæsta íslenska félagið á aðallista kauphallarinnar þennan mánuðinn. Félagið var með um 34% veltuhlutdeild en í mánuðinum skipti 25% hlutur í félaginu um eigendur þegar Landsbankinn seldi hlut sinn. Tvö stærstu félögin að markaðsvirði, Marel og Össur, höfðu mjög takmarkaða veltuhlutdeild eða 4,5% samtals.

„Markaðsaðilar virðast enn hafa töluverðan áhuga á tryggingafélögunum en markaðsvirði þeirra er um 11% af heildar markaðsvirði íslensku félaganna á aðallistanum en félögin höfðu um fjórðung allrar veltu í mánuðinum,“ segir í Morgunkorninu.

Sex félög hækkuðu í júní, Hagar mest um 8,9% en Eimskip hækkaði einnig myndarlega um 6,7%. Þrjú félög lækkuðu, Össur og Vodafone um 6,8% en Marel um 2,6%. Össur var aðeins með um 1% veltuhlutdeild og lækkun félagsins kemur því til af tiltölulega litlum viðskipum en að mati greiningar Íslandsbanka er verðmyndun Össurar í íslensku kauphöllinni óskilvirk.