Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hringdi í Guðjón A. Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, fyrir jól 2003 og greindi honum frá því að til stæði að leggja eftirlaunafrumvarp fram á Alþingi. Guðjón greindi frá þessu á Alþingi í dag og kvaðst hafa sagt við Davíð að hann myndi finna stuðningsmann að frumvarpinu í sínum flokki.

Sjálfur hefði hann verið á leið til útlanda.

Umræður fara nú fram á Alþingi um breytingar á lögum um eftirlaun ráðherra og þingmanna og er ráðgert að afgreiða stjórnarfrumvarp þess efnis sem lög frá þingi nú um helgina.

Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra verði skert frá því sem nú er.

Í umræðunum hefur þingmönnum meðal annars orðið tíðrætt um eftirlaunafrumvarpið umdeilda sem samþykkt var á Alþingi í desember 2003.

Fundað í Ráðherrabústaðnum

Þingmenn hafa meðal annars rifjað upp tilurð frumvarpsins og sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í því sambandi að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna hefði verið kynnt drög að frumvarpinu,  „fyrst og fremst" eins og hann orðaði það, á einum fundi í Ráðherrabústaðnum.

Á þeim fundi hefðu verið þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson og þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde. „Og gott ef þáverandi utanríkisráðherra [Halldór Ásgrímsson] var ekki með," sagði hann.

„Þau frumvarpsdrög sem þá lágu fyrir gengu mun skemur en frumvarpið sem síðan var lagt fram í endanlegri mynd," sagði Steingrímur og bætti því við að endanlegt frumvarp, eins og það var síðan lagt fram, hefði fyrst og fremst verið um stóraukin eftirlaunaforréttindi forsætisráðherra.

Bað Sigurjón Þórðarson um að styðja frumvarpið

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði síðar í umræðunni að hann hefði ekki verið á fundinum í Ráðherrabústaðnum og staðfesti Steingrímur það.

Guðjón greindi frá því að Davíð Oddsson hefði haft samband við sig, daginn áður en Guðjón hefði farið af landi brott, í desember 2003. Í því samtali hefði Davíð sagt að menn væru orðnir nokkuð sáttir við að ríkisstjórnin legði fram eftirlaunafrumvarp.

Guðjón kvaðst þar ekki hafa gert athugasemdir við málið og að hann hefði sömuleiðis sagst myndu finna einhvern í Frjálslynda flokknum til að styðja málið. Hann hefði síðan beðið Sigurjón Þórðarson, þáverandi þingmann Frjálslynda flokksins, um það.

Mistök að leggjast ekki gegn frumvarpinu

Guðjón sagði að hann hefði þá ekki gert sér grein fyrir þeim sérréttindum sem í frumvarpinu fólust og Steingrímur J. ítrekaði að það hefðu verið mistök, af sinni hálfu, að hafa ekki lagst gegn því að málið yrði unnið frekar. Endanlegt frumvarp hefði nefnilega gengið mun lengra en upphafleg drög gerðu ráð fyrir.

Þáverandi forseti þingsins, Halldór Blöndal, var fyrsti flutningsmaður eftirlaunafrumvarpsins í desember 2003 og meðflutningsmenn komu úr öllum flokkum.

Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þáverandi stjórnarflokka, auk atkvæðist eins þingmanns Samfylkingarinnar. Aðrir flokkar féllu frá stuðningi sínum við málið.

Lögin hafa verið  mjög umdeild allar götur síðan og er með því frumvarpi, sem nú er rætt á Alþingi, verið að draga til baka ýmis þau réttindi sem þá voru lögfest.