„Ég [...] velti því fyrir mér hérna í október, nóvember, átti, ég get kallað það, fund með konunni minni og sagði: Er ekki skynsamlegast að ég hætti núna? Ég sé ekki að ég sé að koma þessu inn í hausinn á neinum. Er ekki skynsamlegt fyrir mig að hætta núna?“

Þetta er haft eftir Davíð Oddssyni, fyrrv. formanni bankastjórnar Seðlabankans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem birt var í dag.

Aðspurður um það hvernig Davíð hafi svarað eigin spurningu segist Davíð svara henni þannig: „Ég er að hlaupast frá borði. Ég er að hlaupast frá borði.“

Í skýrslu rannsóknarnefndar er sérstakur kafli í viðhengi en á fundi rannsóknarnefndar, sem haldinn var nú um helgina, var tekið fyrir bréf Davíðs Oddssonar sem barst nefndinni 24. febrúar sl.

Í bréfinu lýsti Davíð m.a. því viðhorfi sínu að starfsmaður nefndarinnar, sem Davíð nafngreinir ekki, hefði gert sig vanhæfan með spurningum sem hann lagði fyrir Davíð við skýrslutöku. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að miðað við efni þeirra ummæla sem Davíð vísar til virðist þar átt við spurningar sem Vilhjálmur Árnason, prófessor og formaður vinnuhóps um siðferði, beindi til Davíðs Oddssonar 12. ágúst 2009.

Í bréfi Davíðs Oddssonar frá 24. febrúar 2010 segir m.a svo:

„Þá vil ég láta þess getið, að er ég kom til skýrslugjafar fyrir nefndinni tók að spyrja mig einstaklingur, er starfar á vegum nefndarinnar. Hóf hann spurningar sínar á því að upplýsa mig um að hann teldi mig að minnsta kosti „ekki einan― bera ábyrgð á bankahruninu. Þá varð hlutaðeigandi maður ítrekað skilinn svo að hann lýsti mikilli furðu á að ég hefði ekki fyrir löngu sagt af mér embætti mínu. Þarf ekki að hafa mörg orð um hversu vandlega umræddur einstaklingur hefur með þessum yfirlýsingum gert sig vanhæfan til starfs fyrir nefndina. Vænti ég staðfestingar nefndarinnar á því, að umræddur einstaklingur hafi á engan hátt komið að því að móta skoðanir eða aðrar niðurstöður er tengjast mínum störfum, minna samstarfsmanna eða annarra er á sama sviði hafa starfað.“

Útskrift af skýrslutöku

Fram kemur að undir lok skýrslutöku hinn 12. ágúst 2009 lagði Vilhjálmur Árnason spurningar fyrir Davíð ásamt Tryggva Gunnarssyni og Páli Hreinssyni er lutu að stjórnsýslu, siðferðilegri hlutverkaábyrgð o.fl. Skýrslan var hljóðrituð í samræmi við lög og hér á eftir fer útskrift af upptökunni:

Tryggvi Gunnarsson (TG): Þetta er bara spurningin um það hvort að þessar reglur — nú er nú búið að formbinda í sjálfu sér ákvarðanir og afskipti stjórnvaldanna af þriðja aðila, þ.e. borgurunum og slíku, en þá liggur eftir í raun og veru innri vinnubrögð stjórnsýslunnar og samskipti milli stjórnsýslunnar og það er akkúrat kannski það sem að við erum að glíma við og þessi þróun að...

Davíð Oddsson (DO): T.d. það sem við höfum beinlínis, ég segi við höfum eða Seðlabankinn hefur, við höfðum, heimildir til að setja mönnum reglur, eins og varðandi gjaldmiðlahlutfall eða lausafjárstreymi, það var jafnan gert skriflega. Það var jafnan gert skriflega. En það sem við höfðum bara eiginlega svona, gátum lýst áhyggjum okkar eða umvöndun eða þess háttar, það var gjarnan gert munnlega og þannig held ég að þannig hagi allir seðlabankar sér. Ég held að það sé algjörlega, það sé ekki af því að við séum fámennir og það allt saman og kunningjasamfélag. Seðlabankaheimurinn t.d. er eitthvert mesta kunningjasamfélag sem ég hef séð, bara eitthvert mesta kunningjasamfélag sem ég hef séð og þetta eru svo stór ríki, þetta er algjörlega lokaður klúbbur manna sem þora ekki að tala við neina aðra heldur en þessa sömu menn. Nú við vitum það í Frakklandi koma allir valdamennirnir úr sama skólanum, tiltölulega fámennum skóla. Þannig að þetta er, sem er þá ennþá lokaðri klíka sem að enginn kemst inn í. Þannig að menn mega ekki gefa sér endilega að fámennið hér geri það að verkum að við högum okkar eitthvað undarlega, ég held að fámennið oft reyndar sýni það að við erum fljótari að snúa okkur við fyrir vikið. Það held ég. En það er enginn núna sem sér meira eftir því þegar að, sérstaklega þegar ég sit hérna hjá ykkur, að hafa ekki meira bréfað og þegar ég heyri það jafnvel að sumir hérna vilji ekki kannast við, eins og ástandið er, það sem við erum að segja, þá er maður í vanda.

Vilhjálmur Árnason (VÁ): Er það ekki líka svolítið þröngt að þó að það sé auðvitað grundvallaratriði að skilja ábyrgð sína sem embættismanns lagalegum skilningi, er einhver siðferðilegt inntak í svona hlutverkaábyrgðinni sem að, ef að þú skynjar að allt er að fara úr böndunum en þú sérð á lagabókstafnum: Ja, þetta er ekki alveg í mínum verkahring. Þú hefur raunar lýst því að þú hafir farið umfram hann.

DO: Já, ég hef farið langt umfram hann, já.

VÁ: Og þannig að þú telur þá að það sé svona siðferðilegt inntak í skyldu embættismannsins?

DO: Já, já og ég er náttúrulega, það er líka eigingirni, það er þannig að ég sá auðvitað fram á það hérna í nóvember 2007 eða janúar 2008 að ég fór að hafa áhyggjur að þetta allt mundi fara á hausinn, að ég mundi lenda í einhverjum hremmingum sem ég vildi ekkert lenda í, þetta var ekki bara af því að ég vildi passa bankakerfið, þetta var líka eigingirni. Ég gat ekki hugsað mér að Seðlabankinn sem ég átti að passa, þessi litli seðlabanki – ég átti að passa hann með mínum félögum – að hann mundi lenda í þessum hremmingum, þannig að þetta er ekki bara af því að ég væri svona siðferðilega sterkur eða eitthvað þess háttar...

VÁ: Nei, nei, burtséð frá mótivasjón.

DO: ...þetta var líka þessi eiginleiki eigingirninnar fyrir hönd bankans og kannski fyrir hönd mín sem starfsmanns o.s.frv. Ég m.a.s. velti því fyrir mér hérna í október, nóvember, átti, ég get kallað það, fund með konunni minni og sagði: Er ekki skynsamlegast að ég hætti núna? Ég sé ekki að ég sé að koma þessu inn í hausinn á neinum. Er ekki skynsamlegt fyrir mig að hætta núna?

VÁ: Og hvernig svaraðir þú þeirri spurningu fyrir þér?

DO: Svo svara ég þannig: Ég er að hlaupast frá borði. Ég er að hlaupast frá borði.

VÁ: Það sögðu það eiginlega allir, sko, ég meina forsætisráðherra sagði það, ráðherrar þessara fagráðuneyta sem að, sem brugðust, en – og ég skil þá afstöðu – en er það ekki kannski hluti af þessari siðferðilegu hlutverkaábyrgð sem ég er að nefna að þá ber maður ábyrgð á því að hlutir virki á tiltekinn...

DO: Ég held að forsætisráðherrann hafi ekki sagt þetta fyrr en allt var hrunið.

VÁ: Nei, það er rétt.

DO: Ég er ekki að tala um það, ég er alls ekki að tala um það, þá datt mér ekki í hug að fara því að þá urðu menn bara að reyna að gera sitt besta, en þetta var svona, þegar ég þóttist sjá að bankakerfið mundi ekki standa þetta af sér, ekki nema þá að það kæmi, eins og ég, maður var alltaf að hafa þann fyrirvara að þetta mundi allt saman vera misskilningur og þetta mundi allt saman, markaðirnir opnast og asnarnir með gullkisturnar kæmu aftur og allt þetta. Ég velti fyrir mér þegar maður talar fyrir daufum eyrum, á maður bara ekki að fara? Og hérna, þetta, ég hef gert þetta svo sem áður, ég hérna, þegar ég var búinn að vera tíu ár forsætisráðherra þá kallaði ég á nokkra menn og sagði: Bíddu, ég tel mig standa mig ágætlega, af því að ég hef nægilega sjálfumgleði til þess, en ég bara þekki það af sögum að þegar einhver maður er búinn að vera svona lengi, eins og tíu, ellefu ár að hversu góður sem hann er – ég tala nú ekki um hversu góður sem hann þykist vera – að þá er okkur svo auðvelt að segja: Heyrðu jú, jú, það er allt í lagi með kallinn, hann gerir margt ágætlega, en er nú ekki hægt að fara að skipta? Bíddu, ég er farinn að verða „handicapped―. Mínir félagar sögðu við mig sko kannski að sumu leyti að sömu atvinnu að þeir töldu hann allir af því að hætta, hann væri svo ern og flinkur. Svo þegar hann var ekki lengur ern og flinkur og þeir vildu að hann hætti að þá harðneitaði karlinn þannig að...

VÁ: Mér fannst athyglisvert að þú segir að það hafi ekki hvarflað að þér að hætta eftir að hrunið varð, vegna þess að – og með því er ég alls ekki að gefa í skyn að þú berir ábyrgð á hruninu umfram annan – en hérna samt hafði orðið hrun þar sem að þín stofnun lék vissulega stórt hlutverk og ráðherrar sem komu að þessu og Fjármálaeftirlit. Er það ekki bara eðlileg viðbrögð í lýðræðisríki, burt séð frá því hvernig maður skynjar sína eigin ábyrgð að ja, víkja?

DO: Nei, það fannst mér ekki, vegna þess að eins og ég segi, ég, Seðlabankinn hafði að sínu leyti staðið við allt sitt, hann hafði staðið við allt sitt og rúmlega það. Þegar að allt hrundi að þá sá hann hér um að kerfið, venjulegt bankakerfi og við – þó að ég kannski hafi ekki tekið mikinn þátt í því – við gerðum þar hluti sem við höfðum engar lagaheimildir til. Við ábyrgðumst öll vísakort allra landsmanna. Engin lagaheimild fyrir því. Hvar sem þeir voru í heiminum. Það skildi enginn það, það hrundu allir bankarnir en það gátu allir borgað með vísakortunum sínum, það var út af því að Seðlabankinn gaf út tilkynningu, sem hann hafði enga heimild til, um það að hann mundi ábyrgjast öll vísakort manna. Eins gott að menn vissu það ekki, því þá hefðu þeir kannski farið að taka út það sem þeir áttu ekki fyrir. En þetta var dæmi um það að menn réðu við það sem þeir voru að gera, menn réðu við það sem þeir voru að gera. Þannig að mér fannst alveg sjálfsagt og eðlilegt og ég taldi náttúrulega þessa aðför sem síðan var gerð að Seðlabankanum stórkostlega skaðlega, eins og hefur sýnt sig, það var sagt að það yrði að reka Seðlabankastjórana til að, þá mundi gengið fara að styrkjast og endurreisnin hafast, gengið hefur hrunið og ekki náð sér á strik síðan, sú er staðreyndin, sú er staðreyndin.

VÁ: Hérna, þetta var mjög nátengt því sem Tryggvi var að tala um áðan, þetta með svona kannski, manni virðist eins og athugasemdir þínar, aðvaranir, hafi ekki kannski þótt nægilega trúverðugar vegna ja, þú ert þarna hagvanur heimamaður, eins og þú orðaðir það sjálfur, sem að talar svona óformlega og ert jafnvel talinn vera í einhvers konar útistöðum við einstaklinga í viðskiptalífinu, jafnvel þótt þú hafir aldrei svarað fyrir þig, en þeir hafa verið að beina spjótum að þér og þetta er altalað og þú átt þennan, þessa fortíð, þú átt mótherja og samherja, fyrrverandi undirmenn. Já, þú ert eiginlega búinn að bregðast við þessu, en mér finnst oft eins og þetta hafi, sé hluti af þessu svona, kannski hluti af þessari stærri mynd að menn taka ekki mark á aðvörunum og er hluti af þessari kannski, þessu andvaraleysi að þú sem embættismaður í lykilstöðu, að þínar aðvaranir ná ekki í gegn.

DO: Ég tel að þessar skýringar séu eftiráskýringar þeirra sem að ekki kusu að taka mark á aðvörunum, vegna þess að þeir góðu menn sem með mér fóru, seðlabankastjórarnir hinir, höfðu ekkert gert af sér í þrjátíu, fjörutíu ár annað en að vera í Seðlabankanum, vera virtir og góðir menn. Þeir höfðu tvo þriðju af valdi seðlabankastjórans, ég bara einn þriðja. Þeir voru orðnir sannfærðir um það sem þarna fór fram, þannig að ég tel að þessar skýringar – sem sanna ekki neitt í þessum efnum – þetta eru skýringar manna, pólitískar skýringar, sem ekki tóku mark, eftir á. Og svo er þetta svona alls konar spunameistarar sem hafa tekið þátt í þessu. Mér finnst það liggja svo í augum uppi. Þarna komu þessir menn og við rökstuddum þetta ágætlega, þetta var ekki bara tilfinning. Við rökstuddum það og til þess að undirbyggja þetta, þá komum við með fundargerðir, skýrslur um fundi sem við og okkar embættismenn höfðum átt með erlendum aðilum. Við bjuggum til þessa starfshópa og þessa vinnuferla til að gefa þessu fólki sjálfstætt færi á að meta það sjálft, til að spyrja faghóp seðlabankamanna á fundum þar sem ég kæmi hvergi nærri, Ingimundur var þarna, ég var aldrei þarna. Þannig að við gerðum allt, þannig að þetta eru finnst mér, fyrirgefið, billegar eftiráskýringar. Ég skil þær ekki.“

Nefndin telur ummæli Vilhjálms ekki gera hann vanhæfan

Davíð gerði athugasemdir við hæfi Vilhjálms með eftirfarandi orðum:   „Hóf hann spurningar sínar á því að upplýsa mig um að hann teldi mig að minnsta kosti „ekki einan― bera ábyrgð á bankahruninu. Þá varð hlutaðeigandi maður ítrekað skilinn svo að hann lýsti mikilli furðu á að ég hefði ekki fyrir löngu sagt af mér embætti mínu.“

Í útskrift af skýrslutökunni kemur í ljós að þau orð sem Vilhjálmur Árnason prófessor lét falla eru eftirfarandi:

„Mér fannst athyglisvert að þú segir að það hafi ekki hvarflað að þér að hætta eftir að hrunið varð, vegna þess að – og með því er ég alls ekki að gefa í skyn að þú berir ábyrgð á hruninu umfram annan – en hérna samt hafði orðið hrun þar sem að þín stofnun lék vissulega stórt hlutverk og ráðherrar sem komu að þessu og Fjármálaeftirlit. Er það ekki bara eðlileg viðbrögð í lýðræðisríki, burtséð frá því hvernig maður skynjar sína eigin ábyrgð að ja, víkja?“

Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að tilvitnuð ummæli og spurningar, sem lagðar voru fyrir Davíð Oddsson 12. ágúst 2009, lutu m.a. að stjórnsýslu svo og siðferðilegri hlutverkaábyrgð o.fl. Þessi efni tengjast beint rannsóknarefni starfshópsins um starfshætti og siðferði.

„Hvorki efni né framsetning framangreindra ummæla Vilhjálms Árnasonar prófessors verða talin veita vísbendingu um óvild hans í garð Davíðs Oddssonar,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

„Verður því ekki talið að hann hafi gert sig vanhæfan með þessum ummælum til þess að fara með afmarkaða þætti í rannsókn nefndarinnar á grundvelli reglna um sérstakt hæfi eins og mál þetta liggur fyrir nefndinni.  „