Davíð Oddson seðlabankastjóri segir að nýliðinn október muni seint hverfa Íslendingum úr minni. Veðrabrigði hafi orðið í íslensku efnahagslífi, margt snúist til illra átta, vandamál sem víða hafi leynst og lengi búið um sig, hafi leysts úr læðingi og það við eigin kjörskilyrði.

Uppskeran í þessum yfirleitt uppskerulitla mánuði hafi verið ömurleg, mygluð og úr sér gengin en þó að mestu eins og sáð var til. Jarðvegurinn og veðurskilyrðin hafi aukinheldur ekki verið til þess fallin að draga úr þeim skaða sem fyrirhyggjuleysi sáðmanna olli.

Þetta kom fram í máli Davíðs á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun sem bara yfirskriftina „Fjármálakreppan – er lausn í sjónmáli.“

Davíð sagði að nú ríkti mikil eftirspurn eftir sökudólgum og síðustu vikurnar hafi honum virst sem Seðlabanki Íslands og forysta hans hafi verið í toppsæti sökudólgalistans.

Sjálfur gæti hann vart annað en dáðst svolítið að því, að það hafi gengið svona lengi, svo langsótt sem það er og sagði hann ennfremur að bak við þann áróður stæðu m.a. þeir sem mesta ábyrgði bæru á því hversu illa hafi farið.

Í ræðu sinni sagði Davíð að í þessu mikla gerningaveðri og galdrafári hafi tekist að horfa fram hjá því að árið 1998 hafi lögum á Íslandi verið breytt svo, að bankaeftirlit hafi verið fært frá Seðlabankanum ásamt öllum heimildum og skyldum til að fylgjast með því sem var að gerast innan bankakerfisins. A

llar leyfisveitingar sem snúi að fjármálastofnunum hafi verið færðar frá bankanum til nýs Fjármálaeftirlits, sem hafi fengið víðtækar heimildir og úrræði til að hafa áhrif á bankakerfið. Seðlabankinn hafi hinsvegar misst sín úrræði og geti ekki sett eftirlitsmenn inn í bankana, staðreynt hvort reglur um lánveitingar til eigenda banka eða til skyldra aðila séu virtar, komið í veg fyrir að bankar opni útibú erlendis o.s.frv.

Davíð segir vel megi vera að það hafi verið mikil mistök að færa fjármálaeftirlit undan Seðlabanka en það sé önnur saga. Það hafi verið gert og því þýði ekki að veitast að Seðlabankanum með offorsi fyrir að sinna ekki því eftirliti sem hann hafði á hendi fyrir réttum áratug síðan.