Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans sagðist aðspurður á fundi bankans í gær ekki telja að íslensku viðskiptabankarnir hefðu átt þátt í gengisfalli krónunnar undanfarið.

Um stöðu bankanna sagði Davíð að nú væri liðið ár frá því að þrengingar hófust á lánamörkuðum.

„Þá voru vangaveltur og spár um að íslensku bankarnir myndu ekki standa þetta af sér, en þeir hafa gert það furðuvel hingað til. Því lengur sem þessi fjármálakreppa stendur yfir, því erfiðari verður hún fyrir alla, fyrirtæki og banka,“ sagði Davíð.

„Það er afar þýðingarmikið að menn lagi sig að þeim staðreyndum. Ég held að bankarnir séu frá morgni til kvölds að vinna í þessum þáttum. Það er mikið í húfi. Hins vegar getur enginn tekið ábyrgðina af þeim. Það er ekki hægt. Bankarnir verða sjálfir að bera meginþungann og ábyrgðina á því að leysa þetta vandamál og þeim er það algjörlega ljóst sjálfum. Þeir hafa ekki verið að tala um að fá hér peninga til að leysa málin, heldur eru að hamast í því sjálfir.“