Icesave málið var mikið í umræðunni fyrir jól, önnur jólin í röð, en málið er enn óleyst og mikil óvissa um framhaldið. Flestir vita hvernig málið stendur í dag en það er enn margt órætt varðandi aðdraganda þess.

Þannig er haft eftir Davíð Oddssyni í bók Árna M. Mathiesen, fyrrv. fjármálaráðherra, sem kom út nú fyrir jól að Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, hafi í samtali við Davíð í aðdraganda hrunsins, sagt að Icesave krafan yrði afskrifuð. Samkvæmt frásögn Árna á Davíð að hafa komið þessum skilaboðum til þáverandi ríkisstjórnar.

Í ítarlegur viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins staðfestir Davíð þessa frásögn. King hafi í samtali við hann sagt að Englandsbanki myndi ekki gera þá kröfu að innstæður á Icesave reikningunum yrðu endurgreiddar af Íslendingum.

„Mér þótti mjög vænt um að heyra þetta og þakkaði honum vel fyrir. Þetta samtal er til á bandi. Við vorum nú ekki vanir að taka svona samtöl upp en við gerðum það einhverra hluta vegna í þetta skipti,“ segir Davíð.

„Utanríkismálanefnd Alþingis bað um þessa upptöku eftir að ég fór úr Seðlabankanum en þá sagðist bankinn ekki geta afhent hana nema með samþykki Englandsbanka. Ég átta mig nú ekki alveg á þeirri niðurstöðu því að þegar lögin voru sett um rannsóknarnefnd Alþingis þá áskildu menn sér rétt til að láta allar upplýsingar af hendi, öll bankaviðskipti og hvaðeina. Þetta hefur mikið vægi í þessu mikilvæga máli.“

Þá segir Davíð að sér sé ekki kunnugt um að Seðlabankinn hafi nokkurn tíma beðið Englandsbanka um leyfi til að láta upptökuna af hendi þannig að ekkert liggi fyrir um afstöðu Englandsbanka til þess.

„Stóra málið í þessu er að þetta var einhliða ákvörðun Breta og Hollendinga að greiða út allar innstæður á Icesave reikningunum,“ segir Davíð.

„Það gerðu þeir án þess að spyrja okkur af ótta við það að ef í ljós kæmi að þúsundir manna væru að tapa peningum á sparireikningum yrði gert áhlaup á allra þeirra banka. Þeir greiddu þetta út og komu í veg fyrir bankaáhlaup, þannig að þessi aðgerð þeirra gekk mjög vel upp og sparaði þeim gífurlega peninga. Síðan datt þeim allt í einu í hug að rukka Íslendinga um þessi „lán“ sem þeir áttu að hafa veitt. Ég hef aldrei tekið lán og fengið bara að vita um það eftir á. Þetta er alveg galið.“

Nánar er fjallað um þetta og margt fleira í viðtali við Davíð Oddsson í áramótatímariti Viðskiptablaðsins.