Davíð Oddsson seðlabankastjóri bar við bankaleynd á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Hann upplýsti þar með ekki um þær ástæður sem hann telur vera fyrir því að Bretar beittu Landsbankanum hryðjuverkalögum til að frysta eignir bankans þar í landi.

Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður nefndarinnar, segir vonbrigði að Davíð skuli ekki upplýsa um málið ekki síst í ljósi þess að hann hafi sjálfur lýst því yfir í ræðu að bankaleynd ætti ekki  við í ýmsum málum sem tengdust bankahruninu.

„Hann [Davíð] hefur einnig sagt að hann sé viljugur að upplýsa um málið [ástæðu beitingu hryðjuverkalaganna] síðar meir. Ég skil þess vegna ekki hvers vegna hann telji sig vera bundinn af bankaleynd núna en ekki seinna."

Ágúst Ólafur minnir á að íslensk stjórnvöld séu að skoða réttarstöðu sína gagnvart Bretum vegna hryðjuverkalaganna og það skjóti því skökku við að Davíð hafi hugsanlega einhverjar upplýsingar sem varpað gæti ljósi á það mál.

Upplýsti ekki um bréfaskriftir við aðra banka

Á fundi nefndarinnar með Davíð í morgun var einnig, að sögn Ágústs Ólafs, rædd samskipti Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar á árinu.

Þá óskaði nefndin eftir bréfaskriftum milli Seðlabankans og annarra seðlabanka á árinu. Davíð taldi að trúnaður og bankaleynd ríkti einnig um þau skjöl.

„Markmið allra er að upplýsa um þessi mál," segir Ágúst Ólafur og bætir því við að „gegnsæi" hljóti því að vera lykilorðið.

„Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir að hann sé ekki tilbúinn að koma fram með upplýsingar sem hann býr yfir og tilkynnir séstaklega um að hann búi yfir"

Kunnugt um hvað réði afstöðu Breta

Í umræddri ræðu Davíðs, sem hann flutti hinn 18. nóvember sl, sagði hann um beitingu hryðjuverkalaganna að Gordon Brown og Alistair Darling hefðu skýrt hvers vegna þeir gripu til þess úrræðis.

„Það hafa ekki öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar [...Þ]egar málin verða rannsökuð, þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda."