Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði rétt í þessu að erlendir kröfuhafar á íslensku bankanna muni ekki fá allar sínar skuldir greiddar, heldur aðeins 5-15% ef heldur fram sem horfir. Þetta kom fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins.

Davíð sagði að aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að losa íslensku þjóðina frá því að greiða upp skuldir óreiðumanna og íslensku bankanna, eins og hann orðaði það. Miðað við að íslensku bankarnir í óbreyttri mynd þyrftu á sjötta tug milljarða evra á næstu árum vegna endurgreiðslu lána væri alltof stór skuldaklafi settur á framtíðarkynslóðir.

Ekkert kaffispjall

„Þegar menn koma til seðlabanka að tala um vandræði sín er það ekki kaffispjall," sagði Davíð um aðdragandann þjóðnýtingu Glitnis.  Davíð sagði að Glitnismenn hefðu sagst 600 milljónir evra til að fleyta sér út næstu mánuði. Davíð sagði að veð sem Glitnismenn buðu gegn láninu hefðu ekki verið tæk: „Slík veð hefðu sett okkur í mjög vont ljós ef við hefðum tekið við þeim."

Bent hefur verið á að þjóðvæðing Glitnis hafi komið vandræðum íslensku bankanna af stað fyrir alvöru: „Þetta finnst mér afskaplega sniðug og skemmtileg skýring, en einnig hlægileg. Það sem verður til þess að mat er lækkað á Glitni er að ljós kom að bankinn var kominn í greiðsluþrot," sagði Davíð.