Það voru mikil mistök að aðskilja á sínum tíma Fjármálaeftirlitið út úr Seðlabankanum. Það gerði það að verkum að hvorug stofnunin hafði bolmagn til að bregðast við ört vaxandi bankakerfi.

Þetta segir Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph. Hann segir þó að aðskilnaðurinn hafi komið til af breskri fyrirmynd en á tímum Gordon Brown hafi það sama verið gert á Bretlandi.

Hins vegar hafi hann, Davíð, verið forsætisráðherra á þessum tíma þannig að vissu leyti megi kenna honum um það. Enginn hefði hins vegar gert sér í hugarlund hvað myndi gerast á alþjóðavísu síðar meir.

Í frétt Telegraph kemur fram að sérsveitarmenn hafi gætt Davíðs fyrir nokkrum mánuðum þar sem honum hafði borist líflátshótanir. Þess utan hafi mikið verið um mótmæli fyrir utan Seðlabankann og hávaðasprengjur sprengdar fyrir utan heimili hans um miðja nótt.

Þá kemur fram í blaðinu að á meðan flestir útrásavíkingar landsins hafi flúið land geti Davíð ennþá gengi um göturnar óáreittur.

„Nú get ég farið hvert sem ég vil,“ segir Davíð í samtali við blaðið.

„Þegar þetta fyrst gerðist [efnahagshrunið s.l. haust – innsk.blaðamanns] kallað fólk ónotaorðum til mín á götum úti en í dag fæ ég mjög jákvæð viðbrögð. Fólk var reitt og það þurfi að finna sökudólg.“

Í umfjöllun Telegraph kemur meðal annars fram að við einkavæðingu bankanna fyrir nokkrum árum hafi Davíð lagt það til að eignarhald hvers aðila yrði bundið við 8% til að tryggja dreifða eignaraðild. Hann hafi hins vegar orðið undir í þeirri umræðu og margir þeim sem mótmæltu þeirri hugmynd hans þá kenni honum nú um hrunið.

Sjá nánar umfjöllun Telegraph.