Það má skynja, þó ekki sé nema örlitla hlýju, í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í leiðurum Morgunblaðsins á þessu ári.

Davíð Oddsson, nú ritstjóri Morgunblaðsins og Ólafur Ragnar hafa lengi eldað grátt silfur saman í pólitík en í ítarlegu viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins er Davíð spurður út í afstöðu sína til forsetans nú.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu tímaritsins en er hér birtur í heild sinni.

„Hann auðvitað gat ekki annað en synjað Icesave lögunum eins og þau voru,“ segir Davíð aðspurður um fyrrgreint atriði.

„Þetta var tæpt í þinginu og svo komu 60 þúsund undirskriftir. Hann hafði áður gengið erinda Baugs með helmingi færri undirskriftir þannig að hann gat ekki gert þetta öðruvísi.“

Þá segir Davíð að áramótaskaup síðasta árs hafi augljóslega haft mikil áhrif á afstöðu forsetans í málinu. Í skaupinu hafi Bessastöðum verið breytt í dópbæli fyrir útrásarvíkinga og jafnvel þó stærsti hluti skaupsins hafi snúist um þetta hafi ekki einn einasti Íslendingur gert athugasemdir við það. Það sé mjög sláandi.

„Ólafur Ragnar er enginn kjáni og hann áttaði sig á stöðunni,“ segir Davíð.

„Og það verður hver að eiga það sem hann á. Forsetinn fór reglulega í viðtöl við erlenda fjölmiðla vegna málsins og gerir enn. Það er rétt að hrósa honum fyrir það. Þetta var auðvitað það sem forystumenn þjóðarinnar hefðu átt að gera en hafa aldrei gert. Það væri ósanngjarnt að segja að Jóhanna hefði svikist um það, hún er bara einfaldlega ófær til þess. Við þurfum að vera hreinskilin með það. Steingrímur er sjálfsagt ekki ófær um það en hann sveikst þó um það. Ólafur Ragnar gerði þetta mjög vel og með öflugum hætti.“