Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans sagði í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans margfalda reynslu fyrir því, bæði hér á landi og nánast hvarvetna, að verðbólga er til óþæginda ef hún hverfur úr hóflegu fari.

„Hægt er að færa fyrir því fræðileg rök að Seðlabankinn einn og óstuddur gæti með tækjum sínum haldið verðbólgu niðri, en þá þyrfti hann einnig að beita þeim af slíku offorsi, að það gæti haft afar óhagstæð áhrif á fjölmarga aðra þætti þjóðlífsins. Því er afar þýðingarmikið að þeir sem mestu ráða um þróun fjármála- og efnahagslífs í landinu togi allir í sömu átt á móti vexti verðbólgu og láti skammtíma hagsmuni og sjónarmið víkja í þeim átökum. Auðvitað er Seðlabankanum falið að standa vaktina sérstaklega fyrir hönd almennings og almannavaldsins, og honum ber að beita tækjum sínum hvort sem mönnum líkar betur eða verr,“ sagði Davíð í ræðu sinni.

Hann sagði baráttuna við verðbólguna geta á köflum verið óþægilega „og þegar líður á meðferðina geta óþægilegar aukaverkanir fylgt sem freistandi væri að losa sig undan í þeirri veiku von að vandinn leystist af sjálfu sér, eins og við höfum reyndar heyrt óábyrga menn tala um upp á síðkastið,“ sagði Davíð.