Davíð Oddsson, formaður bankaráðs Seðlabankans sagði á fundi bankans í morgun að Seðlabankinn hefði talið að líklegt væri að gengi íslensku krónunnar myndi fyrr eða síðar lækka, þegar það var hvað sterkast.

„Hins vegar var gert ráð fyrir því að það myndi gerast síðar. Spurningin var hvort þeirri þróun var flýtt og höggið þannig verið harðara fyrir vikið - aðlögunin ekki eins mild og hæg og við vonuðum að myndi gerast," svaraði hann, aðspurður hvort spákaupmenn hefðu valdið gengislækkun krónunnar.

„Því er ekki að neita [...] að við bundum vonir við að þessi gengisaðlögun kæmi fram þegar spennan hefði minnkað í efnahagslífinu, þannig að líkindi stæðu til þess að verðlagsáhrif gengislækkunarinnar yrðu minni, þar sem samkeppnin hefði aukist og spenna væri yfirleitt minni í þjóðfélaginu," sagði hann.

Vilja bíða hagfelldari skilyrða fyrir lántöku

Aðspurður hvort Seðlabankinn hefði tekið ákvörðun um að auka gjaldeyrisforða sinn sagði Davíð að það lægi fyrir að ríkisstjórnin, og líklega stjórnarandstæðan einnig, vildi að gjaldeyrisforði bankans yrði aukinn með lántökum.

„Og við höfum auðvitað, þegar af þeirri ástæðu, hugað að því og undirbúið slíka hluti. En endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin; við viljum gjarnan að skilyrði séu hagfelldari en þau eru í augnablikinu," svaraði Davíð.

Aðspurður sagði hann að ekki hefðu verið nefndar upphæðir í þessu sambandi, en að ekki væri óeðlilegt að ætla að gjaldeyrisforði yrði að minnsta kosti tvöfaldaður.