Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á fundi með blaðamönnum í dag að bankinn útilokar ekki frekari stýrivaxtahækkanir.

"Samkvæmt spám Seðlabankans verður verðbólga enn yfir verðbólgumarkmiði bankans næstu tvö árin og það er ekki hægt að útiloka frekari stýrivaxtahækkanir," sagði Davíð.

Hann gagnrýndi einnig stjórnvöld og sagði ákvarðanir ríkistjórnarinnar og vöntun á aðhaldi í fjárlögum hafa ýtt undir ákvörðun bankans um að hækka vexti í dag um 25 punkta í 14,25%.

Greiningaraðilar bjuggust við óbreyttu vaxtastigi en útilokuðu þó ekki að vextir myndu hækka um 25 punkta. Kaupþing banki hafði þó spáð hækkun á bilinu 25 til 50 punktar.

Um er að ræða auka-vaxtaákvörðunarfund en þann annan nóvember síðastliðinn ákvað bankastjórnin að halda vöxtum óbreyttum en skaut jafnframt inn aukavaxtaákvörðunardegi í desembermánuði. Bankastjórnin lagði þá áherslu á að um frestun væri að ræða en ekki endanlegan lokapunkt vaxtahækkunarferilsins. Það hefur komið á daginn nú, og vaxtahækkunarferilinn heldur áfram.

Bankastjórn Seðlabankans sagði á síðasta fundi að ekki kæmi til greina að setja endapunkt við vaxtahækkunarferilinn fyrr en skýrar vísbendingar lægju fyrir þess efnis að verðbólguþrýstingur hefði hjaðnað. Ljóst er að þær hagtölur sem hafa komið í ljós á síðustu vikum duga ekki til eins og búist hafði verið við en verðbólga hefur dregist saman og þá eru teikn á lofti um að einkaneysla og þensla sé á undanhaldi. Engu að síður hefur gengisþróun frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi verið með þeim hætti að hún er líkleg til að auka verðbólguþrýsting.