Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, reiddist Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, mjög þegar sá síðarnefndi hélt því fram að nokkur stórskuldug félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni væru ekki einn og sami aðilinn. Davíð lamdi þá í borðið og sagði: „Þú talar ekki svona við mig drengur.“

Davíð sagðist ennfremur hafa orðið fyrir „sjokki“ þegar hann áttaði sig á hversu há lán félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni hafi verið með hjá Glitni. Stoðir/FL Group var stærsti eigandi bankans og var einnig í ráðandi eigu Jóns Ásgeirs.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að Davíð hafi fyrst kynnt sér útdrátt úr lánabók Glitnis yfir stærstu skuldara bankans þriðjudaginn 30. september 2008, daginn eftir að Glitnir var þjóðnýttur.

Í skýrslunni segist Davíð hafa séð að „eigandi bankans viðrist í þeim tölum skulda 170 milljarða, en reyndar reyndust það nú vera 300 og eitthvað milljarðar. Þá er forstjóri Fjármálaeftirlitsins staddur í bankanum og mér var svo mikið um þetta að ég hljóð niður á 1. hæðina, þar sem hann var, og kallaði hann yfir í næsta herbergi og sýndi honum þessar tölur, þar sem var sko Baugur, Gaumur og FL-Group og Landic Property og bara 360...þá sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins : „Þú misskilur þetta, þerra eru ekkert sömu aðilarnir.“ Þá lamdi ég nú fast í borðið og sagði: „Þú talar ekki svona við mig drengur.“ [...]...mér fannst hann vera að gera grín að mér. En þetta var miklu verra að svo voru þarna nöfn, sem ég hafði ekki þekkingu á, að voru sömu aðilarnir.“