Aðhald í ríkisrekstri og lækkun opinberra skulda eru stærsta velferðarmálið  hér á landi. Þetta segir Davíð Þorláksson héraðsdómslögmaður í pistli í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Í pistli sínum segir Davíð að ef hægt sé að draga einhvern lærdóm af skuldakreppunni í Grikklandi þá sé hann sá að skuldasöfnun ríkja sé mjög óábyrg. Hann bendir á að skuldir íslenska ríkisins hafi farið úr því að vera 39% af vergri landsframleiðslu árið 2005 í 110% árið 2012 og í árslok 2014 hafi skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs verið 2.027 milljarðar króna, eða 11,3 milljónir króna á hvert heimili. S

Hann segir að samkvæmt langtímaáætlun í ríkisfjármálum Íslands til ársins 2018 sé hins vegar ekki gert ráð fyrir neinni lækkun nafnvirðis skulda á því tímabili.

Skuldirnar vaxa ef ekkert er gert

„Ef skuldsettur maður fellur frá þá er engum skylt að erfa skuldir hans. Þær eru bara afskrifaðar. Því miður gildir ekki það sama um skuldir sem stjórnmálamenn hverrar kynslóðar safna í nafni ríkissjóðs. Þær fara ekkert, heldur bera árlega vexti og vaxa bara ef ekkert er að gert. Opinberar skuldir eru því teknar með veði í framtíðartekjum komandi kynslóða,“ skrifar Davíð.

Hann segir það blasa við að ekkert ríki muni geta bæði átt kökuna og borðað hana. Kostnaður í heilbrigðis- og menntakerfum fari vaxandi og geti auðveldlega vaxið hraðar en skattstofnar. Sé ætlunin að sinna grunnhlutverki ríkisins vel þurfi að sættast á það sem fyrst að hætta að ausa peningum í aðra málaflokka, og nefnir hann styrki til landbúnaðar og stjórnmálaflokka í því samhengi.

„Ef við snúum ekki þessari óheillaþróun við þá munu börnin okkar borga hverja krónu, sem við eyðum í dag, margfalt til baka. Þau munu hafa minna svigrúm til að verja fé í það sem máli skiptir til framtíðar. Aðhald í ríkisrekstri og lækkun opinberra skulda er því stærsta velferðarmálið,“ skrifar Davíð að lokum.