David Cameron, forsætisráðherra Breta, er farinn að undirbúa stjórnarmyndun í Bretlandi þótt enn séu tvö ár til kosninga. Hann vill þá mynda nýja stjórn með frjálslyndum demókrötum, segir fréttavefur Telegraph.

Cameron hyggst ráðfæra sig við óbreytta þingmenn flokks síns, Íhaldsflokksins, um einstök atriði stjórnarsáttmálans þegar hann yrði mótaður. Þeir myndu síðan kjósa um hann þegar hann verður fullgerður.

Telegraph segir að nokkrir þingmenn úr flokki Camerons séu ósáttir við þann stjórnarsáttmála sem gerður var við myndun ríkisstjórnar Íhaldsflokksins og frjálslyndra. Þar eiga þeir til að mynda við Evrópumál og mál samkynhneigðra.

Sumir þingmanna Camerons telja sig jafnvel ekki skuldbundna til að styðja einstök atriði sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Cameron vill koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.