Davíð Guðmundsson svarar ummælum Indriða H. Þorlákssonar í pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær.

Indriði hafði sagt að mismunur á kaupverði og markaðsvirði hlutabréfa í símanum þeirra sem keyptu fyrir almennt útboð væri gjöf og að skattleggja ætti hana sem slíka. Segir Indriði að gjöfin hafi verið að verðmæti 720 m. kr. og að væntanlegar skatttekjur ættu að vera um 300 m.kr.

Davíð segir í sínum pistli:

„Það sem kemur undirrituðum mest á óvart við umræddan pistil er að aðili með svo yfirgripsmikla þekkingu á skattamálum ákveði að gera tiltekin málefni ótrúverðug gegn betri vitund, þar sem ekkert liggur fyrir um það að markaðsvirði hlutanna hafi verið hærra en kaupvirði og þvert á móti mætti áætla að kaupvirði sé markaðsvirði nema að annað liggi fyrir í málinu.“

Davíð segir einnig að Indriði sé að fara gegn betri vitund í málinu en finnist engu að síður rétt að rita pistil um væntan tekjustofn vegna sölunnar.

„Umfjöllun Indriða varðar það að gjöf kunni að vera skattskyld og er alls ekki fundið að því enda liggur það ljóst fyrir að gjöf getur verið skattskyld. Hins vegar ákveður pistlahöfundur, þvert gegn betri vitund verður að telja, að um gjöf hafi verið að ræða og vitnar hann sér til stuðnings ótilgreindar fréttir fjölmiðla. Undirritaður hefur hins vegar hvergi séð slíka umfjöllun og gefur sér að tilvitnaðar greinar fjölmiðla hafi fjallað um að heildarhlutirnir hafi hækkað um 720 m.kr. frá kaupdegi. Þessu tvennu er ekki saman að jafna og verður því ekki útboðsgengi (hvað þá síðara tíma markaðsgengi) notað sem skattstofn fyrir kaupum sem gerðust fyrr. Þetta veit Indriði en finnst engu að síður rétt að rita pistil um „væntan tekjustofn“ vegna sölunnar.“