Davíð Helgason, einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Unity, hefur verið kjörinn í stjórn félagsins til næstu þriggja ára. Davíð hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2014 en fram að því hafði hann verið forstjóri Unity. Á sama tíma voru forstjórinn John Riccitello og Roelof Botha, einn eigenda fjárfestingarfélagsins Sequoia Capital, skipaðir til þriggja ára.

OTEE 2020 ApS, félag sem heldur utan um hlut Davíðs og Joachim Ante, sem stofnaði Unity með Davíð, seldi nýlega 2% af hlutafé sínu í Unity fyrir 6,7 milljarðar króna. Hlutur Davíðs í Unity nemur um 3,6% í Unity í dag, samanborið við 4,0% við skráningu félagsins í New York Kauphöllina í september síðastliðnum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í mars að Davíð og bróðir hans, Ari Helgason, vinna nú að stofnun nýs fjárfestingarsjóðs. Þá stofnaði Davíð tvö félög hérlendis í lok mars. Annars vegar er það fjárfestingarfélagið Foobar Technologies Iceland ehf. sem mun fjárfesta í tæknisprotafyrirtækjum og hins vegar Foobar Properties Iceland ehf.