Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, þvertekur fyrir að hann hafi ýtt hinni svokölluðu Endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins út af borðinu. Lítil áhrif verksins segir hann heldur mega reka til þess að skýrslan hafi ekki staðist skoðun.

Þetta kemur fram í Reykjavíkurbréfi sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Þar svarar Davíð Vilhjálmi Egilssyni sem í viðtali við Viðskiptablaðið fór hörðum orðum um viðbrögð Davíðs við skýrslunni.

„Ég hafði um nokkurt skeið verið mjög gagnrýninn á vaxtastefnu Seðlabankans og ég tel að hann hafi tekið þá gagnrýni of persónulega,“ sagði Vilhjálmur í umræddu viðtali. „Það sem stjórnaði ferðinni var þjóðhagslíkan Seðlabankans. Ég var mjög ósáttur við það líkan enda taldi ég, og tel enn, að það sé mjög ófullkomið. Mér fannst Davíð ganga allt of langt í því að gerast talsmaður þessa þjóðhagslíkans. Hann síðan velur á landsfundinum að láta þessa óvild út í mig bitna á flokknum.“

Vilhjálmur vísar þarna í orð Davíðs á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2009 þar sem Davíð gagnrýndi skýrsluna í ræðu sinni og beindi orðum sínum þar sérstaklega til Vilhjálms.

Í Reykjavíkurbréfi segir eftirfarandi:

„En það eru ekki aðeins þeir sem eru framarlega í flokki íslenskra stjórnmálamanna sem eru ógagnsæir í ummælum sínum og gjörðum. Sumir virkir innanbúðarmenn í stjórnmálaflokkum geta sýnt ekki síðri tilþrif í umræðum. Þegar glöggt er skoðað kemur í ljós að þeir skálda eitthvað upp sem enga stoð á í raunveruleika og fimbulfamba hver við annan um uppdiktaða atburði árum saman. Eitt skrítnasta dæmi þessa eru upphrópanir um svokallaða Endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins sem dúkkaði upp á Landsfundi flokksins 2009, litprentaður langhundur. Fundarmenn fengu hann ekki í hendur fyrr en á fundinn var komið. Hópstjórinn, Vilhjálmur Egilsson, mælti fyrir skýrslunni. Umræður urðu litlar sem engar enda engum gefist tóm til að lesa langhundinn. Skýrslan var svo borin upp og samþykkt. Bréfritari, sem kom á þennan fund sem óbreyttur landsfundarfulltrúi, tók engan þátt í hinni takmörkuðu umræðu um þessa skýrslu og var ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna. Hann flutti hins vegar tölu daginn eftir og vék þá að þessari skýrslu örfáum orðum, enda reis hún ekki undir miklu. Um þetta hafa ófáir sjálfskipaðir snillingar skrifað á netpistla og víðar. Þeir hafa flestir harmað að bréfritari hafi „ýtt skýrslunni út af borðinu“, þótt sumir hafi verið mun stóryrtari en það, að hætti hússins,“ segir Davíð og heldur áfram:

„Vilhjálmur Egilsson, sem nú er hættur hjá atvinnurekendum, er ekki minni nákvæmnismaður en fyrrnefndur Benedikt. Hann segir að bréfritari hafi jarðað Endurreisnarskýrsluna og finnur helst fyrir því annarlegar ástæður. Hreytir hann ónotum í bréfritara út af hinni meintu urðun afurðar hópsins sem hann stýrði. En hvernig gat bréfritari, óbreyttur landsfundarfulltrúi „jarðað“ skýrslu, sem landsfundur hafði samþykkt, með því einu að víkja að henni örfáum orðum í framhjáhlaupi í stuttri ræðu?“