Á aðalfundi Haga sem haldinn var í morgun var auk hefðbundinna aðalfundastarfa kosið í stjórn félagsins.

Allir fyrrum stjórnarmenn voru kosnir til áframhaldandi setu en af þremur nýjum sem buðu sig fram var það Davíð Harðarsson fjármálastjóri Nordic Visitor sem kemur nýr inn í stjórnina.

Á aðalfundinum var jafnframt samþykkt að hækka stjórnarlaun um 10%, þannig að stjórnarformaður fær 660 þúsund á mánuði, nýtt hlutverk varaformanns gæfi 495 þúsund á mánuði en aðrir stjórnarmenn 330 þúsund krónur.

Auk þess að samþykkja heimild til kaupa á allt að 10% alls hlutafjár í félaginu næstu 18 mánuði, samþykkti félagið að hækka hlutafé félagsins um tæplega 42 milljón hluti.

Hið nýja hlutafé, sem samsvarar um 3,4% alls hlutafé í félaginu, yrði undanskilið forgangsrétti hluthafa því áætlað er að nota það til að greiða fyrir hlutafé í Olís ef kaupsamningurinn á félaginu fær náð fyrir augum samkeppnisyfirvalda.

Loks samþykkti félagið að greiða ríflega 1,2 milljarða króna í arð, á genginu 1,023 krónur á hlut.

Eftirtaldir hlutu kjör í stjórn félagsins:

  • Davíð Harðarson fæddur 1976 er nýr í stjórn, en hann fékk 605.790.648 atkvæði. Hann er fjármálastjóri Nordic Visitor.
  • Erna Gísladóttir fædd 1968 bauð sig fram til áframhaldandi setu en hún er forstjóri BL og fékk 711.720.118 atkvæði.
  • Kristín Friðgeirsdóttir fædd 1971 hefur verið formaður stjórnar en hún fékk 704.974.984 atkvæði.
  • Sigurður Arnar Sigurðsson fæddur 1964 er fyrrverandi forstjóri Húsasmiðjunnar en hann fékk 679.212.154 atkvæði til áframhaldandi setu í stjórn.
  • Stefán Árni Auðólfsson fæddur 1972 er lögmaður hjá LMB lögmönnun, en hann var kjörinn til áframhaldandi setu í stjórn og fékk til þess 704.918.999 atkvæði.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá buðu auk þeirra þeir Már Wolfgang Mixa lektor í fjármálum við HR og Tryggvi Guðbjörn Benediktsson ráðgjafi sig fram en hlutu ekki stjórnarsæti.