Ferðalagi mínu í Sahara er nú lokið,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson sem sagt hefur starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Sahara. Davíð er einn meðeigenda og stofnenda fyrirtækisins og hefur verið framkvæmdastjóri þess frá stofnun þess árið 2009.

„Að stofna og reka þetta skemmtilega fyrirtæki með góðum vinum og samstarfsfólki var forréttindi enda ekki þessa hefðbunda auglýsingastofa, meira svona auglýsingastofan sem getur allt,“ segir Davíð í færslu á Facebook og bætir við:

Ég kveð Sahara afar stoltur. Sahara er ein af stærstu auglýsingastofum landsins í dag og mun heldur betur halda àfram að vaxa.

Magnað ævintýri undanfarin ár þar sem árleg ráðstefna, opnun útibús í Orlando, Sahara Academy og vöxtur á hverjum degi varð að veruleika enda mikill metnaður í eigendum og starfsfólki.

Nú hefst hjá mér góð slökun fyrir sál og líkama enda lítið um það undanfarin ár.

Sigurður Svansson verður staðgengill framkvæmdastjóra Sahara þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.

Í dag starfa yfir 40 starfsmenn hjá Sahara við að aðstoða á annað hundrað íslenskra og erlendra fyrirtækja með markaðs- og auglýsingamál.