Davíð Helgason og Þjóðverjinn Joachim Ante, sem stofnuðu hugbúnaðarfyrirtækið Unity, seldu í lok maí 2% af hlutafé sínu í fyrirtækinu fyrir 6,7 milljarða króna. Viðskiptin voru gerð í gegnum félagið OTEE 2020 ApS sem stofnað var í kringum frumútboð Unity í september síðastliðnum til að halda utan um hlut Davíðs og Ante.

Á þeim tíma átti Davíð 4% hlut í Unity, Ante 7,2% og samanlagður hlutur þeirra tveggja því 11,2%. OTEE á eftir söluna 28,9 milljónir hluti eða um 10,3% hlutafjár Unity en markaðsvirði hlutanna er um 345 milljarðar króna í dag. Hlutur Davíðs í OTEE er 35,3% og því á hann um 3,6% af hlutafé Unity að andvirði 122 milljörðum króna. Hlutdeild Davíðs í sölunni nemur um 2,4 milljörðum króna.

Í flöggunartilkynningu í kjölfar útboðsins kom fram að Davíð, Ante og OTEE hefðu skuldbundið sig til að hvorki selja eða losa sig við hlutabréf í Unity á rúmu sex mánaða tímabili í kjölfar skráningarinnar á markað, nánar tiltekið þar til um miðjan marsmánuð. Jafnframt kemur fram að Davíð og Ante, sem er yfirmaður tæknimála (CTO) hjá Unity, þurfa báðir að samþykkja allar ákvarðanir um sölu á hlutabréfum eða kosningu á hluthafafundum. Ef þeir eru ósammála þá mun OTEE sitja hjá við atkvæðagreiðslur.

Hagnaður OTEE á síðasta ári nam 23,8 milljörðum danskra króna, eða um 472 milljarðar íslenskra króna miðað við núverandi gengi gjaldmiðlanna, sem má rekja til gangvirðisbreytinga á hlutnum í Unity. Eigið fé OTEE var um 492 milljarðar króna um áramótin.

Hlutabréfaverð Unity hækkaði um 231% á rúmum þremur mánuðum eftir skráningu á markað en hefur lækkað um nærri 40% síðan þá. Þrátt fyrir lækkunina er gengi fyrirtækisins enn um 89% yfir útboðsgenginu. Fyrirtækið, framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, hefur ekki enn skilað hagnaði. Í lok mars síðastliðins nam samanlagður halli félagsins frá stofnun 906,5 milljónum dala eða um 110 milljarða króna. Tekjuvöxtur félagsins var þó 41% á fyrsta fjórðungi og tekjurnar námu 235 milljónum dala.

Davíð komst nýlega á lista Forbes yfir milljarðamæringa heims og situr í 2.674 sæti. Björgólfur Thor Björgólfsson er hinn Íslendingurinn á listanum en hann er í 1.444 sæti. Joachim Ante kom einnig nýr inn á Forbes listann og situr í 1.750 sæti.

Stofnar fjárfestingarfélög á Íslandi

Davíð hefur unnið mestallan ferilinn sinn erlendis og býr með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. Hann hefur að undanförnu horft í auknum mæli til Íslands. Viðskiptablaðið greindi frá því í mars að Davíð og bróðir hans, Ari Helgason, vinna nú að stofnun nýs fjárfestingarsjóðs.

Áhersla sjóðsins verður á fjárfestingar í verkefnum tengdum loftslagsbreytingum og umhverfismálum. Þá stofnaði Davíð tvö félög hérlendis í lok mars. Annars vegar er það fjárfestingarfélagið Foobar Technologies Iceland ehf. sem mun fjárfesta í tæknisprotafyrirtækjum og hins vegar Foobar Properties Iceland ehf. Foobar Technologies er nafnið á fjárfestingarfélagi Davíðs sem hefur fjárfest í ýmsum fyrirtækjum og vísisjóðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .