Eik rekstrarfélag hefur ráðið Davíð Rúnar Gunnarsson sem markaðsstjóra og fyrirtæki hans, Viðburðastofu Norðurlands til að sinna markaðsmálum verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs á Akureyri. Segja má að starfið sé komið heim norður þar sem markaðsstjórar Glerártorgs hafa hingað til verið búsettir á höfuðborgarsvæðinu og því sætir ráðningin nokkrum tíðindum.

„Ég er mjög spenntur fyrir starfinu og að fá að kynnast fjölbreyttri starfsemi fyrirtækja á torginu og fólkinu sem þar starfar, sem ég þekki þó reyndar flest,“ segir Davíð Rúnar, sem flestir þekkja sem Dabba Rún. Davíð er þaulreyndur í markaðsmálum og hefur verið áberandi í viðburðarlífinu á Akureyrarsvæðinu í áratugi segir í fréttatilkynningu um ráðninguna.

Davíð Rúnar hefur rekið Viðburðarstofu Norðurlands undanfarin ár og mikið komið að markaðsstarfi viðburða og fyrirtækja í gegnum tíðina. Á Glerártorg koma árlega yfir 1,5 milljónir viðskiptavina árlega og er Glerártorg stærsta verslunarmiðstöð utan höfuðborgarsvæðisins. Verslunin er með yfir 36 verslanir, veitingastaði, læknastofur, tannlækna og blóðbanka.