Þáverandi Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, tjáði Geir H. Haarde, sem þá var forsætisráðherra, að tugmilljarða lán til Kaupþings sem bankinn fékk í miðju hruni, væri tapað áður en gengið var frá láninu.

Þetta kemur fram í vitnaskýrslu Sturlu Pálssonar starfsmanns í Seðlabankanum hjá Sérstökum saksóknara árið 2012, e n RÚV fjallaði um málið í Kastljósi í kvöld.

Ákvörðunin Geirs

Hafi Davíð sagt að ákvörðunin um lánið væri Geirs og að öfugt við það sem hingað til hafi verið haldið fram, þá hefði það ekki verið tilviljun að símtalið hafi verið hljóðritað í Seðlabankanum.

Þetta kom fram í Kastljósi RÚV í kvöld um Kaupþingslánið, 500 milljóna evru lán Seðlabankans þann 6. október 2008. Þann dag voru neyðarlögin sett og Glitnir og Landsbankinn fóru báðir á hausinn. Þremur dögum síðar fór Kaupþing einnig á hausinn, og lánið sem veitt var til fimm daga var því ekki endurgreitt.

Veðið átti að standa ríflega undir lánveitingunni

Lánið var veitt með veði í danska FIH bankanum árið 2012, en þegar sá banki var seldur árið 2012 reyndist tugmilljarða tap af lánveitingunni. Fram hefur komið að bankinn hafi átt að standa ríflega undir lánveitingunni, en umdeilt hefur verið hvernig að sölu bankans hafi verið staðið.

Á upptökunni kemur fram að einungis verði hægt að hjálpa einum banka, og í kjölfar símtalsins hringdi Davíð í Hreiðar Má Sigurðsson forstjóra Kaupþings þar sem honum hafi verið kynnt að Kaupþing fengi fyrirgreiðslu.

Í febrúar í fyrra sagði Már Guðmundsson, núverandi Seðlabankastjóri að skýrsla yrði gefin út um aðdraganda og eftirmála lánveitingarinnar, en enn hefur ekkert bólað á þessari skýrslu, og segir í svari Seðlabankans við fyrirspurn um málið að ekki sé hægt að tímasetja útgáfudag skýrslunnar.