Davíð Helgason, einn stofnenda Unity Technologies, seldi hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu fyrir tæplega 41,6 milljónir dala, eða um 5,4 milljarða króna, í desember. Viðskiptablaðið greindi frá því að Davíð seldi í fyrirtækinu fyrir 7,2 milljarða króna í nóvember og nemur söluandvirði hans á síðustu tveimur mánuðum því tæplega 12,6 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í dag.

Fyrir hafði hann minnkað hlut sinn í Unity í nokkrum lotum frá því í maí síðastliðnum. Í heildina hefur Davíð nú selt í fyrirtækinu fyrir nærri 19 milljarða króna í ár.

Þegar Unity var skráð í kauphöll Nasdaq í Bandaríkjunum í september 2020 átti Davíð 10,4 milljónir að nafnvirði í hugbúnaðarfyrirtækinu, sem samsvaraði 4,4% af hlutafé félagsins. Eftir söluna í desember á hann nú 9,2 milljónir að nafnvirði og hefur því selt um 11,4% hlut í fyrirtækinu frá því í maí.

Eftirstandandi 3,2% hlutur Davíðs, sem situr í stjórn fyrirtækisins, nemur tæplega 170 milljörðum króna að markaðsvirði.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .