Davíð Helgason og Þjóðverjinn Joachim Ante, stofnendur Unity, seldu í vikunni hlutabréf í fyrirtækinu fyrir tæplega 39,5 milljónir dala eða sem nemur 5 milljörðum króna. Félagarnir höfðu þegar selt í Unity í lok ágúst fyrir 4,8 milljarða króna, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Hlutur Davíðs og Joachim í Unity var færður inn í félagið, OTEE 2020 AoS, sem stofnað var í kringum frumútboð hugbúnaðarfyrirtækisins fyrir rúmu ári síðan. Davíð fer með 35,3% hlut í OTEE.

Félagið hefur nú alls selt 1,2 milljónir að nafnvirði í Unity, eða um 0,21% hlut, frá því í maí fyrir alls 132,5 milljónir dala eða um 17 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Hlutdeild Davíðs í sölunni nemur því um 6 milljörðum.

Auk þess seldi Davíð hlutabréf í Unity á eigin vegum í águst, sem hann fékk í þóknun í ágúst 2020 fyrir stjórnarstörf, fyrir tæplega 200 milljónir króna. Sé miðað við gengi krónunnar í dag, má ætla að hlutur Davíðs í sölu á hlutabréfum Unity á síðustu mánuðum nemi alls 6,2 milljörðum króna.

OTEE á eftir sem áður 10% hlut í Unity að markaðsvirði 4 milljörðum dala eða um 510 milljörðum króna. Hlutdeild Davíðs í þeim hlut nemur því nærri 180 milljörðum króna.

Hlutabréfaverð Unity hefur hækkað um þriðjung frá því að fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung þann 10. ágúst síðastliðinn og stendur nú í tæplega 140 dölum á hlut. Útboðsgengi Unity við skráningu í New York kauphöllina í september 2020 var 52 dalir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .