© Aðsend mynd (AÐSEND)

Davíð Stefán Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Talentu, dótturfyrirtækis Símans sem sérhæfir sig í alhliða ráðgjöf við þróun og rekstur á SAP hugbúnaði. Davíð Stefán tekur við af Þorvarði Sveinssyni, sem sinnir verkefnum á skrifstofu forstjóra Símans.

„Það er spennandi að taka við fyrirtækinu á þessum tímapunkti. Talenta stendur vel og framundan eru tímabil vaxtar og frekari sóknartækifæra,“ segir Davíð sem hefur starfað hjá Símanum í ellefu ár: „Hjá Talenta starfar samheldinn hópur sérfræðinga sem býr yfir mikilli þekkingu, það er mér mikil ánægja  að fá að taka þátt í störfum þeirra,“ segir hann í tilkynningu frá Símanum.

Þar segir jafnframt að Davíð Stefán hóf störf hjá Símanum eftir tveggja ára hlé í febrúar 2008 sem sérfræðingur í viðskiptaþróun og erlendum mörkuðum og sinnti í ár. Þegar fókus Símans færðist heim tók Davíð Stefán við sem forstöðumaður í fyrirtækjaþjónustu Símans og hélt utan um þjónustu við fyrirtæki. Á árunum 2010 til 2013  var hann forstöðumaður heildarlausna fyrir fyrirtæki, en það fól í sér tæknilega þjónustu, vöruþróun og vörustýringu á fyrirtækjamarkaði. Frá því í september hefur hann verið sérfræðingur í viðskiptaþróun. Fyrsta starf Davíðs hjá Símanum var eftir útskrift úr háskóla árið 2001 þegar hann vann sem sölumaður fyrirtækjalausna. Hann tók svo við starfi viðskiptastjóra smærri fyrirtækja og loks stærri. Árin tvö sem hann varði kröftum sínum utan Símans vann hann hjá Open Hand hf. sem sölu- og markaðsstjóri fyrir innlenda og erlenda starfssemi í Bretlandi, Þýskalandi og víðar.

Davíð er 38 ára Iðnrekstrarfræðingur með Bsc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði. Eiginkona hans er Sigurrós Pétursdóttir, vörustjóri Toyota og Lexus á Íslandi. Þau eiga þrjú börn.